136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[14:34]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Frú forseti. Það er dapurlegt að heyra að fundurinn í hádeginu skyldi engan árangur bera í þá veru sem við sjálfstæðismenn báðum um fyrr í morgun. Það hlýtur að skjóta sérstaklega skökku við að Framsóknarflokkurinn, sem var að enda við að ljúka utandagskrárumræðu um atvinnumál, vilji ekki (Gripið fram í: ... stjórnarskrármálið.) stuðla að því að halda áfram að ræða hin brýnu atvinnumál sem hann þykist bera svo fyrir brjósti. (Gripið fram í: Hvað er að frétta?) Við viljum (Forseti hringir.) tala um hin brýnu atvinnumál, við erum að biðja um það, og það hlýtur að vera ábyrgðarhluti hjá Framsóknarflokknum því hann greinilega veit ekki hvaða stefnu hann hefur í málinu. Formaður hans, sem hefur ítrekað kallað eftir umræðu um brýn atvinnumál, er að vísu ekki þingmaður. Hann greinilega stjórnar engu í þingflokknum og þingflokkurinn ber nákvæmlega enga virðingu fyrir formanni sínum. Það er algerlega augljóst hér.