136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[14:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Þegar mikil mótmæli urðu á götum úti í samfélaginu upp úr áramótum til að mótmæla óstjórn Sjálfstæðisflokksins, efnahagshruninu sem Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á, var að sjálfsögðu verið að krefjast aðgerða í þágu heimila, verið var að krefjast aðgerða í þágu atvinnulífs og verið var að krefjast aukins lýðræðis. Allt voru þetta kröfur utan úr samfélaginu og krafist var nýrrar ríkisstjórnar. Allt gekk þetta að mestu leyti eftir. Það kom ný ríkisstjórn sem er að vinna í samræmi við stefnuskrá sína og í samræmi við vilja þjóðarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan áhuga á því að ræða lýðræðismálin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan áhuga á því að ræða breytingar á stjórnarskrá í takt við það sem þjóðin hefur verið að krefjast. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki mæta þjóðinni. Hann vill ekki auðlindirnar í þjóðareign þrátt fyrir að hafa verið með það í stefnuskrám ríkisstjórna áður fyrr. (Forseti hringir.) Hann vill ekki að fólk geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er það sem blasir við þjóðinni í málflutningi Sjálfstæðisflokksins.