136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þessarar umræðu verði minnst sem ákveðins niðurlægingartímabils í sögu Alþingis þegar hér koma upp þingmenn eins og hv. síðasti ræðumaður sem telur sjálfsagt að Alþingi stígi til hliðar, að Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið, og ég held að Alþingi hafi í raun og veru, virðulegi forseti, aldrei komist á það stig að hér standi í þessum ræðustól, í þessum sal, þingmenn sem lýsi því sem sjálfsögðum hlut að Alþingi stígi til hliðar. Að standa í þessum ræðustól og telja það sjálfsagt og eðlilegt að óska eftir því að meiri hluti Alþingis samþykki að Alþingi stígi til hliðar, að Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið eins og hv. þingmaður lagði til. Eins og ég segi, ég tel að þetta sé einhver mesta niðurlæging sem komið hefur inn í þessa sali enda hefur engum manni dottið þetta áður í hug. Það hafa komið fram hugmyndir um stjórnlagaþing, ráðgefandi stjórnlagaþing, en ég fullyrði að það hefur enginn ræðumaður staðið hér og flutt meirihlutatillögu frá nefnd um stjórnarskrármálið sem gengur út á það að Alþingi stígi til hliðar og Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið. Þetta eru mikil tíðindi og ill í sögu Alþingis. Þau eru enn verri vegna þess að þegar hv. þingmenn taka sæti á Alþingi skrifa þeir undir drengskaparheit þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.“

Þetta er það sem þingmenn skrifa undir. Hér heyrum við síðan þingmenn standa og flytja tillögu frá meiri hluta nefndar um það að Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið. Telja þingmenn virkilega að slíkar yfirlýsingar séu í samræmi við þetta drengskaparheit sem þeir hafa undirritað með því að setjast á þingið? Ég ítreka það, virðulegi forseti, að þetta er niðurlægingartími í sögu Alþingis sem við lifum hér. Þetta var niðurlægingarræða fyrir Alþingi sem hv. þingmaður flutti og ég er undrandi á því að fleiri skuli leggja þessu máli lið sem er til stofnað vegna þess að það þurfti að fá stuðning Framsóknarflokksins við minnihlutastjórn. Við minnihlutastjórn sem var mynduð með þeim hætti að það er fullkomlega réttmæt stjórnskipuleg gagnrýni á myndun stjórnarinnar að ekki hafi verið farið að stjórnskipunarvenju við myndun stjórnarinnar, að það skuli hafa verið farið út í það strax á fyrsta degi að ráðast í að mynda minnihlutastjórn er líka brot á öllum stjórnskipunarvenjum sem hér hafa gilt og þarf þá kannski ekki að undra að þetta fólk sem þannig stendur að verki vilji hafa stjórnlögin í höndum einhverra annarra. Er greinilega alveg sama um stjórnlögin, alveg sama og segir bara: Alþingi á að stíga til hliðar, Alþingi á að gefa frá sér stjórnarskrárvaldið, og leggur það til og telur að það sé hluti af einhverri kröfu almennings. Hvar hefur það komið fram að krafa almennings sé um það að Alþingi gefi frá sér þetta vald? Ég spyr: Til hvers er verið að boða til kosninga 25. apríl ef menn á sama tíma samþykkja að Alþingi gefi frá sér valdið til að ákveða hvað er í stjórnarskránni? Stjórnlagaþingið gæti ákveðið að Alþingi yrði lagt niður. Stjórnlagaþingið gæti gert tillögur um það og samþykktir um það að Alþingi hyrfi úr sögunni. Er það það sem hv. þingmenn stefna að og vilja að stjórnlagaþingið geri eftir að Alþingi hefur stigið til hliðar? Tillagan sem hér er flutt getur jafngilt því að það sé beinlínis lagt til að Alþingi sé lagt af, það stígi ekki aðeins til hliðar heldur sé lagt af, því að stjórnlagaþingið hefur fulla heimild til að gera hvað sem það vill við endurskoðun á stjórnarskránni og gæti þess vegna lagt þetta til.

Virðulegi forseti. Þetta eru einkennilegir tímar og dæmalaust að telja að það sé krafa og hluti af endurreisn Íslands við núverandi aðstæður að leggja til frumvarp sem gerir ráð fyrir því að Alþingi stígi til hliðar og að unnt verði að semja stjórnlög án þess að Alþingi eigi þar síðasta orðið, taki ákvarðanir, leggi til tillögur og móti þær í þingsalnum eftir ráðgjöf frá öðrum. Virðulegi forseti, við sjálfstæðismenn erum á móti þessu máli eingöngu vegna þess að okkur er annt um virðingu Alþingis. Okkur er annt um það heit sem við gefum þegar við setjumst á þing og skrifum undir, að við ætlum að halda stjórnarskrá Íslands í heiðri, en það gerum við með því að standa vörð um Alþingi. Við gerum það með því að standa vörð um stjórnarskrárvaldið í höndum Alþingis þannig að ég tel að þeir hv. þingmenn sem að þessu óheillaverki standa séu á villigötum, hafi látið blekkjast og leiða sig út í ógöngur. Þess vegna erum við sjálfstæðismenn á móti þessu frumvarpi og leggjum til að því verði vísað frá.

Hvað lesum við svo? Við lesum það í vefmiðli í dag að boðað sé til nýrrar búsáhaldabyltingar fyrir utan Alþingishúsið síðdegis til að mótmæla því að við ræðum þetta mál. Það er komin hvatning til að stofna til slíks hávaða úti á götunni að við getum ekki rætt málið.

Þann 20. janúar varði lögreglan Alþingi og störf Alþingis. Þá kom lögreglan og stóð vörð um þingið þannig að við gætum haldið áfram störfum. Nú stöndum við inni í þessum sal og þurfum að verja heiður Alþingis vegna þess að inni í salnum er fólk sem leggur til að Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið. Svo ætlar fólk að koma hér og boðar í nafni lýðræðis og einhverrar — ég veit ekki hvers — borgarahreyfingar, eins og það heitir, að við getum ekki talað um þetta og svo mikill hávaði verði utan dyra síðdegis og í kvöld að við getum ekki talað um þetta. Þetta er það sem meiri hluti nefndarinnar er að verða við með því að leggja til að við gefum frá okkur stjórnarskrárvaldið. Er þetta það ástand sem menn vilja? Ég sé ekki betur en að ef ekki er veitt fyrirstaða og tekið á málum af þeim þunga sem þarf verði Alþingi ýtt til hliðar í eitt skipti fyrir öll en ekki bara í þessu eina máli, þannig að ég hvet hv. þingmenn til að huga að því sem hér er að gerast og skoða málið í því ljósi.

Sagt er að verið sé að bregðast við kalli sem hefur komið og kom hér þegar lögreglan þurfti að verja Alþingishúsið og síðan þegar við ætlum að ræða þetta mál er fólk boðað aftur til að trufla störf þingsins, til að svo mikill hávaði verði í þingsalnum að við getum ekki talað. Þetta er ástandið sem hv. þingmenn stuðla að og þess vegna lögðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins til fyrr í dag að tóm yrði gefið til að ræða, taka á og fara yfir önnur mál frekar en að stofna til þess ófarnaðar í þingsalnum og þeirrar niðurlægingar fyrir Alþingi sem hér er lögð til og kemur fram í áliti meiri hluta nefndarinnar þegar sagt er að hér sé orðið við kröfu um að Alþingi stígi til hliðar og verið sé að bregðast við þeirri kröfu með þeim tillögum sem hér eru fluttar að Alþingi víki sæti og aðrir taki að sér að móta og ákveða stjórnarskrá landsins. Um það snýst þetta mál og var krafa Framsóknarflokksins til að þessi stjórn yrði til. Forsenda þess að stjórnin yrði til var að flokkarnir sem standa að minnihlutastjórninni samþykktu þessa kröfu Framsóknarflokksins. Þetta eru stjórnarhættirnir. Svo þegar heiðvirðir þingmenn, sem auðvitað blöskrar þessi framganga öll, eru spurðir: Hvers vegna látið þið þetta yfir ykkur ganga? Þá er svarað: Við verðum að þjóna Framsóknarflokknum. Hann veitir ríkisstjórninni stuðning. Þess vegna verðum við að láta þetta yfir okkur ganga. Í raun og veru er alveg ótrúlegt að við skulum standa hér og þurfa að ræða þetta á síðustu dögum þingsins að aðalmálið sé að þjónka Framsóknarflokknum með þessum hætti, Framsóknarflokknum sem stóð að því að styðja þessa stjórn eða veita henni skjól fyrir vantrausti á þeirri forsendu að tekið yrði á brýnustu málum þjóðarinnar og þinginu lyki 12. mars. Það var loforðið sem Framsóknarflokkurinn gaf þegar hann hóf stuðning við þessa ríkisstjórn að hún einbeitti sér að brýnustu málunum sem snertu hag heimila og fyrirtækja og þinginu lyki 12. mars svo kostur gæfist á því að fara í kosningabaráttu og leggja mál fyrir þjóðina.

Nú erum við hér 2. apríl og enginn veit hvenær þinginu lýkur og langar umræður hafa farið fram í dag um að nauðsynlegt væri að færa önnur mál framar á dagskrána af því að þetta mál skipti hag heimila og fyrirtækja engu. Það hefur verið haft að engu. Út af hverju, hv. þingmenn? Vegna þess að enn er verið að þjóna Framsóknarflokknum. Enn er verið að láta undan kröfu Framsóknarflokksins um að þvæla þessu máli og kröfunni um það að Alþingi stígi til hliðar. Á þeim forsendum var þessi ríkisstjórn mynduð að Alþingi stigi til hliðar, að Alþingi léti frá sér stjórnarskrárvaldið til að hægt væri að mynda minnihlutastjórn sem færi á skjön við þingræðisregluna og héldi síðan þinginu með þeim hætti sem við höfum kynnst og síðan þurfum við að standa hér og er neitað um að laga dagskrá þingsins að eðlilegum kröfum þingmanna til að taka fyrir önnur mál en umræðuna um að Alþingi stígi til hliðar. (Gripið fram í: Hver er krafan?) Að verða við kröfunni um að Alþingi stígi til hliðar og svo er birt í netfrétt: Ef þið talið lengi þá komum við og lemjum og verðum með svo mikinn gauragang fyrir utan að ekki verði hægt að tala saman í salnum. Þá verður lögreglan að koma aftur.

En lögreglan ver bara húsið að utan en ekki það sem gerist í salnum, það er undir okkur þingmönnum sjálfum komið. Ætlum við virkilega að túlka það sem hefur gerst á þann veg að við eigum að slá af þetta vald Alþingis og gefa frá okkur stjórnarskrárvaldið? Er það niðurstaðan? Vorum við kjörin til þingsins á þeim grundvelli? Var það þess vegna sem við undirrituðum drengskaparheit um að standa vörð um stjórnarskrána til að láta undan og stíga til hliðar þegar þessir atburðir gerðust og segja: Þingið verður að stíga til hliðar til að bankarnir komist á skrið? Það er nýbúið að birta skýrslu eftir einhvern Finna sem fór yfir málin og hann bendir ekki á neitt sem rökstyður að nauðsynlegt sé að Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið til að takast á við það sem gerðist í bankahruninu. Hann víkur hvergi að því, ekki einu orði. Ég er viss um að maðurinn hefur ekki haft hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að leiðin til að bjarga bankakerfinu væri sú að Alþingi stigi til hliðar og gæfi frá sér stjórnarskrárvaldið. Engum hefur dottið það í hug nema framsóknarmönnum og þeim sem stóðu að því að mynda þessa ríkisstjórn og töldu það úrslitaatriði til að stjórnin gæti starfað að tekið yrði á málum með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Það er niðurlæging að þurfa að standa hér og ræða þetta mál á þessum forsendum. Það er niðurlægjandi fyrir Alþingi að málum skuli þannig komið núna að við þurfum að ræða þetta að ósk Framsóknarflokksins til að stjórnin haldi lífi, þrátt fyrir skilyrði Framsóknarflokksins um að rjúfa hafi átt þingið 12. mars og við erum hér 2. apríl og vitum ekki enn hvenær þinginu lýkur. Það sýnir hvers lags stjórnarhættir hafa verið í þessu landi með þessari hörmulegu niðurstöðu að því er varðar sjálft Alþingi og stöðu þess í stjórnskipan landsins.

Við sjálfstæðismenn í sérnefndinni höfum skilað áliti sem ég ætla að lesa, virðulegi forseti, og þar segir:

„Við meðferð þessa máls hefur verið gengið gegn þeirri venju að undirbúa breytingar á stjórnarskrá á þann veg að leitað sé samstöðu allra flokka. Þá hefur verið haldið þannig á málinu í sérnefnd um stjórnarskrármál að tillögu minni hluta nefndarinnar um leið til sátta í henni hefur verið hafnað. Á síðasta fundi sérnefndarinnar lýsti formaður hennar því einfaldlega yfir að tími sátta væri liðinn. Minni hluti sérnefndarinnar gagnrýnir þessa málsmeðferð harðlega og telur hana eina svo ámælisverða að vísa beri frumvarpinu frá að lokinni 2. umræðu um málið og flytur hér tillögu um það efni.“

Virðulegi forseti. Í 1. mgr. þessa álits er vísað til þeirrar venju sem hér hefur gilt við frágang stjórnarskrárbreytinga. Hér er áfangaskýrsla nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands frá því í febrúar 2007, lögð fram af þáverandi forsætisráðherra. Í þeirri skýrslu er m.a. að finna greinargerð eða Viðauka II, Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar, sem er samin af sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar, Eiríki Tómassyni prófessor, Björgu Thorarensen prófessor, Gunnari Helga Kristinssyni prófessor og Kristjáni Andra Stefánssyni sendifulltrúa.

Niðurstaðan í þessum athugunum er á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:

„Áhersla hefur yfirleitt verið lögð á að þróa stjórnarskrána í samstöðu helstu stjórnmálaafla. Í raun má segja að eina grein stjórnarskrárinnar, sem breytt hefur verið í andstöðu við nokkurn hluta þingmanna, hafi verið 31. grein hennar sem fjallar um fyrirkomulag alþingiskosninga. Aðrar stjórnarskrárbreytingar hafa verið unnar í samstöðu helstu stjórnmálaafla. Forsenda þeirrar samstöðu hefur verið að stjórnarskrárbreytingarnar hafa fjallað um vel afmarkaða þætti stjórnskipunarinnar.“

Síðan er farið yfir þær tillögur og breytingar sem gerðar hafa verið og því nákvæmlega lýst hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Aðeins tvisvar sinnum frá 1918 hefur verið ágreiningur á milli flokka, 1934 og 1959. Hver var ástæðan? Meirihlutaflokkarnir voru að breyta stjórnarskránni til að draga úr misræmi í atkvæðavægi og breyta kosningafyrirkomulagi sem var sérstaklega í hag þeim flokki sem var á móti. Þannig var það og ég man vel eftir kosningabaráttunni 1959 eftir að þingið hafði í fyrri umferð samþykkt breytingu á stjórnarskránni og síðan var efnt til kosninga um sumarið og kosið aftur haustið 1959. Ég man vel eftir hvað það var hörð kosningabarátta. Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði m.a. um þetta því að þingmenn í Sjálfstæðisflokknum utan Reykjavíkur lögðust eindregið gegn því að þessi stjórnarskrárbreyting næði fram að ganga því að þeir töldu að það væri réttmætt að mismuna í þágu íbúa utan höfuðborgarsvæðisins og utan þéttbýlisins. Engu að síður náði þessi kosningabreyting og stjórnarskrárbreyting fram vegna þess að menn tóku höndum saman og það var ágreiningur. Mér finnst það eðlilegur ágreiningur. Mér finnst eðlilegt að menn greini á þegar tekist er á um breytingar á fyrirkomulagi eins og því og það liggur í hlutarins eðli að það hljóti að vera ágreiningur ef einn flokkur telur sig hafa hag af því að viðhalda einhverju óréttlæti við jafnvægi atkvæða og kjördæmaskipan og þá er sá flokkur að sjálfsögðu á móti því að réttlætis sé leitað og eðlilegt að deilt sé um það. En eftir þetta hefur einnig verið leitað samkomulags um slíkar breytingar, eins og við vitum, og reyndar hafa sumir sagt að ef síðasta breyting, að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi og annað slíkt, hefði verið borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu hefði það örugglega ekki verið samþykkt, þar hafi þingmenn og þeir sem um það sýsluðu líklega farið fram úr sér miðað við viðhorf almennings. Það er álitaefni og eins og kemur fram í greinargerð okkar erum við ekki á móti því að breyting á stjórnarskrá verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu en við erum á móti þessari aðferð, enda stangast hún á við allt það sem gert hefur verið til þessa og það sem sérfræðingar sögðu árið 2007 eða rituðu hér, þetta er dagsett 2005 og kemur í skýrslu sem er dagsett í febrúar 2007 þannig að það hefur verið meginþema í allri viðleitni við breytingar á stjórnarskrá að ná sem víðtækastri samstöðu, sérstaklega á stjórnmálavettvangi og einnig annars staðar.

Við segjum í áliti okkar:

„Minni hlutinn telur einsýnt að þessa flausturslegu aðferð við afgreiðslu frumvarpsins megi rekja til pólitískra aðstæðna, sem sköpuðust við myndun minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þegar Framsóknarflokkurinn féllst á að verja hana vantrausti gegn því að ákveðið yrði með breytingu á stjórnarskrá að afsala Alþingi stjórnarskrárvaldinu og afhenda það stjórnlagaþingi. Minni hlutinn er eindregið andvígur því að þannig sé vegið að valdi og áhrifum Alþingis.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Þeir stjórnlagafræðingar og lögfræðingar sem koma að því að fjalla um stjórnarskrármál eru á einu máli um að það beri að gefa sér tíma við undirbúning breytinga á stjórnarskrá og það beri að leita samstöðu og samráðs. Þannig sagði Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og varaþingmaður Samfylkingarinnar, í útvarpsviðtali 29. mars að með þeirri leið, sem valin er í frumvarpinu, væri verið að „leita skyndilausna“ og hún bætti við: „Alveg eins og útrásaræðið var æði og peningaæðið var æði, þá er kannski komið nýtt æði.“ Þetta „nýja æði“ felist í því að boða í skyndi til stjórnlagaþings í stað þess að leggja fé í rannsóknir á stjórnarskránni. Fellur þetta sjónarmið að þeirri almennu skoðun þeirra sem ræða um stjórnarskrármál á fræðilegum grunni að það beri að standa þannig að öllum málum varðandi stjórnarskrána, að ekki sé verið að skapa fleiri lögfræðileg vandamál með breytingum eða óljósum skýringum á efni einstakra ákvæða. Hvert orð þurfi í raun að vega og meta og skýra samhengi þeirra með skýrum rökum á fræðilegum grunni. Öll slík meginsjónarmið voru höfð að engu við gerð og afgreiðslu þessa frumvarps. Núverandi ríkisstjórn kallaði til þriggja manna hóp á eigin vegum til að vinna að þessu máli. Sjálfstæðisflokknum var ekki gefinn kostur á að tilnefna mann í hópinn og því ekki gefinn kostur á að taka þátt í því að semja upphaflegu drögin. Þegar hópurinn hafði unnið saman skamma hríð var lagt fram blað á fundi formanna allra flokka með hugmyndum hans, án þess að óskað væri eftir viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins. Þessar tillögur voru ekki lengur óbreyttar heldur var þeim enn breytt nokkrum dögum síðar án þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði færi á því að koma þar að máli. Enn var málinu breytt í þriðja sinn án nokkurs samráðs við Sjálfstæðisflokkinn.“

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í umræðunum að menn hafa hælt sér af þessari málsmeðferð og það kom fram í sérnefndinni um stjórnarskrármál að það væri bara gott á Sjálfstæðisflokkinn að hafa ekki verið með í ráðum. Það var eiginlega talað þannig til okkar nefndarmanna að okkur væri það bara mátulegt, við hefðum í svo langan tíma haft svo mikil áhrif að nú væri kominn tími til þess að ýta okkur svolítið til hliðar. Það endurspeglaðist náttúrlega í gerð frumvarpsins og endurspeglaðist í öllum störfum nefndarinnar. Það brýtur í bága við öll skynsamleg rök til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu um efni stjórnarskrárbreytinga, brýtur í bága við hefðirnar, brýtur í bága við þær ábendingar sem hv. þm. Kristrún Heimisdóttir setti fram í útvarpsviðtali 29. mars. Það má vitna ítarlegar í það ef vill og gefst vafalaust tækifæri til þess í umræðunum. Það brýtur sem sagt í bága við allt það sem menn hafa talið skynsamlegt og best, ekki bara hér heldur hvarvetna annars staðar þar sem menn fjalla um mál af þessum toga.

Það var t.d. athyglisvert að heyra hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur lýsa því í fyrrnefndu viðtali hvernig Thomas Jefferson hefði farið að því að semja bandarísku stjórnarskrána og mátti næstum því halda að hún hefði þar verið viðstödd þegar þeir atburðir gerðust, sem var að vísu ekki, en það kom fram að hún hefði farið á slóðir hans og kynnst bókasafni hans og séð hvernig hann vann og ef ég man rétt kom það fram í viðtalinu líka að hann hefði setið að skriftum öllum stundum — jafnvel þegar hann var á ferðalögum til þess að reyna að skýra hugmyndir sínar og komast að þeirri niðurstöðu sem skynsamlegust væri.

Hér er ekki gefinn tími til slíks. Hér má ekki skrifa neitt og má ekki einu sinni leita sátta í nefndinni sjálfri, hv. formanninum lá svo mikið á að hann gaf ekki einu sinni tóm til þess í nefndinni að ræða málið til hlítar.

Við segjum síðan í greinargerð okkar, virðulegi forseti:

Frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem nefndin hefur haft til umfjöllunar var vísað til nefndarinnar 11. mars sl. Takið eftir því, virðulegir þingmenn, þessu var vísað til nefndarinnar 11. mars. Það er dagurinn sem átti að vera síðasti þingdagurinn að mati Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn stóð að því að mynda þessa stjórn eða veita henni hlutleysi sitt á þeim grunni að þingið sæti ekki lengur en til 12. mars og þá fengju menn að ganga til kosningabaráttu. En það var ekki fyrr en 11. mars sem þetta frumvarp var sent nefndinni en það var þó ekki kosið í nefndina fyrr en daginn eftir og fyrsti fundur nefndarinnar var föstudaginn 13. mars, daginn eftir að Framsóknarflokkurinn hafði sett það sem algjört skilyrði að þinginu væri lokið. Þá kemur þessi nefnd saman og kýs framsóknarmann formann sinn til þess að hefja störf.

Um kvöldið á föstudeginum 13. mars — maður heldur að þessi dagur 13. mars hafi verið óheilladagur, það virðist vera eins og oft getur verið, föstudagurinn 13., það hefur greinilega verið í þessu dæmi þegar við lítum á það sem síðan hefur gerst — er þetta sent út og umsagnaraðilar fá beiðni nefndarinnar um kvöldmatarleytið föstudaginn 13. mars. Og hvað er þeim gert að gera? Að skila áliti sínu á þessum hugmyndum í síðasta lagi fyrir föstudaginn 20. mars. Viku fá þeir til þess og þar af er laugardagur og sunnudagur náttúrlega innifalinn.

Enda var það svo, virðulegir þingmenn, að allir sem komu á fund nefndarinnar og lýstu áliti sínu töldu að fresturinn væri allt of skammur og það hefði ekki gefist neitt ráðrúm til þess að skoða málið. Laganefnd Lögmannafélags Íslands lýsir því yfir að þetta sé svo flausturslega unnið að hún geti á engan hátt lagt því lið að þetta mál nái fram að ganga, m.a. vegna þess að það sé enginn tími gefinn. Hvaða tími er það að senda út óskir um umsagnir að kvöldi föstudagsins 13. mars og heimta að þeim sé skilað 20. mars?

Síðan segir í áliti okkar:

Eiginleg umfjöllun um málið hófst ekki fyrr en mánudaginn 16. mars. Augljóst er að nefndin hefur haft mjög takmarkaðan tíma til að fjalla um málið og er það einstaklega ámælisvert þegar gera á breytingar á grundvallarlöggjöf. Laganefnd Lögmannafélags Íslands leggst gegn frumvarpinu og vekur athygli á því að breytingarnar þurfi frekari athugunar við, og þetta geta menn kynnt sér í umsögn nefndarinnar sem er hér lögð fyrir í fylgiskjölum. Minni hlutinn bendir á að ekki hafi verið gefinn tími til slíkrar athugunar og minni hlutinn tekur undir með Ragnhildi Helgadóttur, prófessor við Háskólann í Reykjavík, sem áréttar mikilvægi þess að farið sé hægt við breytingar á stjórnarskránni.

Eins og segir hér var það ekki einungis nefndinni sem var skammtaður stuttur tími enda gera margir umsagnaraðilar athugasemdir við þann skamma tíma sem þeim er gefinn til að taka afstöðu til svo stórs máls sem stjórnarskrárbreyting er og jafnumfangsmikils frumvarps og hér er um að ræða. Þar nægir að vísa til umsagnar Davíðs Þórs Björgvinssonar, Sigurðar Líndals, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Viðskiptaráðs Íslands, Samorku, Rariks ohf. og Landssambands smábátaeigenda. Þá eru dæmi þess að umsagnaraðilar hafa einfaldlega talið umsagnarfrest of stuttan til að gera vandaðar efnislegar athugasemdir, og má þar nefna Reykjavíkurakademíuna, Ágúst Þór Árnason frá Háskólanum á Akureyri. Hann segir að hann telji ekki forsvaranlegt að senda skriflega umsögn vegna skamms tíma sem til þess sé gefinn.

Þannig segir hér og við bendum á það, minni hluti nefndarinnar:

Málsmeðferð hefur verið verulega ábótavant. Ekki er nema rétt um mánuður liðinn frá því að frumvarpið var lagt fram á Alþingi og umfjöllun nefndar um málið nær ekki þremur vikum. Þrátt fyrir að 11 fundir hafi verið haldnir hefur málið alls ekki hlotið nægilega umfjöllun í meðförum nefndarinnar. Á síðasta fundi hennar taldi formaður ekki ástæðu til að gefa nefndarmönnum tóm til að ræða til hlítar hvort ná mætti samstöðu um einhver ákvæði frumvarpsins. Umsagnaraðilum var ekki heldur gefinn nægur tími til að skýra sjónarmið sín, hvað þá að fjalla um breytingartillögur meiri hlutans, sem sumar eru veigamiklar, svo sem varðandi stjórnlagaþing. Sökin á hinni hroðvirknislegu málsmeðferð liggur hjá meiri hluta nefndarinnar.

Það liggur alveg ljóst fyrir, virðulegi forseti, að hér hefur verið ákaflega illa að verki staðið. Ekki aðeins hefur verið brotin meginregla að leita eftir samkomulagi allra stjórnmálaafla eins og talið var nauðsynlegt í áliti sérfræðinganefndar frá 2005 heldur hefur verið staðið þannig að máli að umsagnaraðilum hefur beinlínis verið stillt upp við vegg vegna tímaskorts. Þeim hefur verið skammtaður svo naumur tími að þeir áhugamenn um stjórnarskrána eins og Ágúst Þór Árnason frá Háskólanum á Akureyri, sem hefur í mörg ár fjallað um málefni stjórnarskrárinnar, segir bara: Ég treysti mér ekki til þess að taka þátt í þessum leik, þetta er of skammur tími og ég ætla ekki að láta bjóða mér að taka þátt í þessu. Þannig má lesa álit hans því að honum var greinilega nóg boðið þegar hann fékk þennan skamma tíma.

Við segjum í 3. tölulið í áliti okkar, sem við köllum rökvillu:

3. Rökvilla: þremur greinum breytt og heildinni svo vísað til stjórnlagaþings. Í frumvarpi því sem nefndin hefur haft til umfjöllunar er gerð tillaga að fjórum ákvæðum. Þar af snúast tvö þeirra um hvernig fara skuli með breytingar á stjórnarskrá þar sem í 2. gr. er lagt til að lögfest verði sú regla að breyting á stjórnarskrá skuli borin undir þjóðaratkvæði í stað þess að tvö þing þurfi að samþykkja hana með kosningum á milli. Hitt ákvæðið er um að Alþingi skuli framselja vald sitt sem stjórnarskrárgjafi til stjórnlagaþings. Hlutverk stjórnlagaþings verði að skrifa nýja stjórnarskrá. Það skýtur því skökku við að þau tvö ákvæði frumvarpsins sem eftir standa feli í sér stórar efnislegar breytingar. Fjalla þau ákvæði annars vegar um auðlindamál og hins vegar þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði 15 af hundraði kosningarbærra manna.

Hvað felst í þessu, virðulegi forseti? Þarna erum við að benda á það að á sama tíma og lagt er til að Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið er verið að leggja til tvær efnisbreytingar á stjórnarskránni. Að sjálfsögðu er það rökvilla að standa þannig að málum. Treysta menn stjórnlagaþinginu t.d. til að afnema Alþingi ef svo bæri undir en treysta því ekki til þess að taka ákvarðanir um náttúruauðlindir og þjóðareign á þeim? Hvaða mat liggur þarna að baki? Hvers vegna nálgast menn þetta á þennan veg, að greina þarna á milli og taka út ákveðin efnisatriði og fela ekki stjórnlagaþinginu að fjalla um þau?

Síðan segir í greinargerð okkar:

Stjórnlagaþingi er ætlað að endurskoða stjórnarskrána og mundi því taka þessi ákvæði til endurskoðunar eins og önnur. Sé traust borið til þess að þingið muni valda starfi sínu og skila niðurstöðu verður að teljast eðlilegt að ekki séu jafnframt gerðar efnislegar breytingar á ákvæðum stjórnarskrárinnar á þessu stigi. Ekki verður heldur séð að slíkar breytingar hafi mikið gildi, enda skal stjórnlagaþing ljúka störfum 17. júní 2011. Gildistími ákvæðanna yrði mjög stuttur og vart séð að um svo brýnar breytingar sé því að ræða. Ákvæðin yrðu ný í stjórnarskrá þegar stjórnlagaþingið tæki þau til endurskoðunar og telur minni hlutinn að með þeirri aðferð sem hér er beitt sé lýst yfir vantrú á að þingið skili tilætluðum árangri. Þá telur minni hlutinn ekki rökrétt að lýsa yfir vantrausti á almenning með því að taka fyrir í þessu frumvarpi efnisatriði, án þess að unnt sé að bera þau undir þjóðaratkvæði. Á fundum nefndarinnar kom auk þess fram að Alþingi gæti unnið að frekari breytingum á stjórnarskránni þar til stjórnlagaþing lyki störfum.

Verði þetta samþykkt eins og þetta liggur hérna fyrir núna er t.d. ekki unnt að bera ákvæðið um þjóðareign undir þjóðaratkvæðagreiðslu því þá mundi Alþingi nú taka ákvörðun um að breyta því ákvæði og síðan mundi væntanlega nýtt þing staðfesta stjórnarskrána og stjórnarskrárbreytingarnar þegar það kæmi saman og þá væri búið að taka spurninguna um þjóðareign út úr meðferð stjórnlagaþingsins og líka taka það út úr því ferli sem hæfist ef við samþykktum bara breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar, sem mundi leiða til þess að framvegis yrðu breytingar á stjórnarskránni bornar undir þjóðaratkvæði.

Þeir sem eru því hér að gagnrýna okkur sjálfstæðismenn fyrir að þora ekki að leggja mál undir þjóðaratkvæði og að við þorum ekki að taka þátt í þessum umræðum vegna þess að við séum hræddir við þjóðaratkvæði, eru að leggja til breytingar á stjórnarskránni sem koma í veg fyrir að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um t.d. þjóðareignina, þetta umdeilda mál. Þeir þora ekki að leggja það undir þjóðaratkvæði. Þeir þora ekki að leggja mál undir þjóðaratkvæði heldur taka út úr einhver gæluverkefni sín og setja inn í þessar breytingar til þess að koma í veg fyrir að það fari undir þjóðaratkvæði. Þannig horfir málið við, virðulegi forseti, en ekki þannig að við sjálfstæðismenn séum hræddir við að bera mál undir þjóðaratkvæði. Það liggur fyrir að verði þessi breyting samþykkt eins og meiri hlutinn leggur til verði þetta ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum ekki borið undir þjóðaratkvæði. Það verður tekið sér, tekið út úr, og það er hræðslan sem kemur fram við þjóðaratkvæðagreiðslu við afgreiðslu þessa máls en ekki afstaða okkar sjálfstæðismanna.

Síðan er í greinargerð okkar vikið að einstökum ákvæðum frumvarpsins og við hefjum þann kafla á þeim orðum:

Minni hlutinn gerir verulegar athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Ótal álitamál og túlkunaratriði standa út af varðandi ákvæðin og þau fullnægja á engan hátt hinni eðlilegu lögfræðilegu kröfu til ákvæða í stjórnarskrá, að þau og skýring þeirra sé tæmandi en ekki opin á þann veg að leiði til lagaóvissu. Með slíkum ákvæðum vex auk þess hætta á því að lagasetningarvald færist frá Alþingi til dómstóla.

Hvað felst í þessum orðum, virðulegi forseti? Í þessum orðum felst mjög alvarleg áminning til stjórnarskrárgjafans um að vanda alla lagasetningu þegar um stjórnarskrána er að ræða. Hættan er sú að með þeim opnu ákvæðum og opnu heimildum sem er að finna í einstökum ákvæðum í þessu frumvarpi sé verið, ekki aðeins að færa vald stjórnarskrárgjafans yfir til stjórnlagaþings heldur að færa lagasetningarvaldið úr höndum Alþingis yfir í dómstólana. Það er hættan með svona opnum ákvæðum.

Á 100 ára afmæli lagakennslu á Íslandi kom hingað til landsins hæstaréttardómarinn Antonin Scalia og lýsti því í smáatriðum hve mikils virði það væri fyrir Bandaríkjamenn að eiga þá stjórnarskrá sem samin var með þeim aðferðum sem hv. þm. Kristrún Heimisdóttir lýsti og fara eftir henni og reyna að fylgja henni og hvað væri nauðsynlegt að fylgja henni vegna þess að menn yrðu að setja sig í þær stellingar sem menn voru í þegar hún var samin og átta sig á því. Löggjafinn yrði síðan að koma og bæta við og setja löggjöf sem samræmdist kröfum á hverjum tíma en ekki ætti að framselja það vald í hendur dómurum sem þyrftu ekki að standa neinum reikningsskil og þyrftu aldrei að kalla einn eða neinn fyrir heldur gætu þeir dæmt, fengið sér kaffisopa og látið eins og ekkert hefði í skorist.

Það er miklu nær að huga að því sem lagasetningarvaldið segir heldur en að lagasetningarvaldið sé að færa vald sitt í hendur dómaranna — að kenna slíkt við lýðræðisbyltingu er fráleitt, gjörsamlega fráleitt. Þess vegna er andinn í frumvarpinu, eins og það er samið og eins og það er upplagt, með öllu andstæður því að menn séu að styrkja lýðræðið þegar þeir hafa slík opin ákvæði og eru að fela dómurum að hafa meira svigrúm en ella væri ef ákvæðin væru betur samin. Raunar á þetta við um öll þessi ákvæði sem lúta að efnisþáttum og það eru þessi tvö ákvæði sem lúta að efnisþáttum, þ.e. ákvæðin sem lúta að þjóðareigninni og ákvæðin sem lúta að almennum reglum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Bæði þessi ákvæði hafa að geyma orð og setningar sem eru þess eðlis að hægt er að túlka þau á margvíslegan hátt.

Við gagnrýndum það sérstaklega, virðulegi forseti, að með greininni um þjóðaratkvæðagreiðslur væri ekki lögð fram að minnsta kosti beinagrind að löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur, og það væri skýrt betur þannig að Alþingi hefði meiri vitneskju en ella til þess að átta sig á því hvað fælist í því ákvæði sem þar er um að ræða.

Um 1. gr. segjum við: Verulegur vafi leikur t.d. á því hvort hugtakið „þjóðareign“ sem notað er í 1. gr. frumvarpsins hefur einhverja lagalega merkingu. Í því sambandi vísast m.a. til umsagnar Sigurðar Líndals þar sem fram kemur að ekki sé hægt að leggja hefðbundna merkingu eignarréttarins í orðið og álitamál hvort nýtt eignarréttarhugtak hafi verið mótað. Fyrir nefndinni benti Sigurður einnig á að þjóð gæti sem slík ekki verið eigandi nokkurrar eignar þar sem hún gæti ekki verið aðili í lagalegum skilningi þess hugtaks. Undir þetta sjónarmið taka Viðskiptaráð Íslands og Davíð Þorláksson í umsögnum sínum. Birgir Þór Runólfsson og Ragnar Árnason telja skerðingu eignarréttar leiða til óhagkvæmni og að ákvæðið feli í sér þjóðnýtingu og valdi efnahagslegu tjóni. Samtök um lýðræði og almannahag gagnrýna aftur á móti að hugmyndir um einkaeignarrétt hér á landi gangi nokkuð langt. Augljóst er því að málið er engan veginn útrætt enda leggja menn mismunandi skilning í hugtakið. Landssamband íslenskra útvegsmanna gerir athugasemdir við óskýra hugtakanotkun og varar við réttaróvissu sem slíku fylgi. Samorka tekur undir með þeim og bendir jafnframt á að um ákvæðið hafi ekki farið fram sú almenna umræða í samfélaginu sem eðlileg sé þegar um er að ræða stjórnarskrárbreytingar. Í sama streng tekur Norðurál. Minni hlutinn telur einsýnt að ræða verði hugtakið til hlítar þannig að merking þess liggi skýr fyrir og ítrekar ábendingar sínar um málsmeðferð sem ekki hefur gefið tækifæri til slíkrar umræðu. Fulltrúar, sem áttu sæti í auðlindanefnd, en hún lauk störfum árið 2000, komu á fund nefndarinnar og lýstu stuðningi við að ákvæði um þjóðareign yrði stjórnarskrárbundið en þessi grein frumvarpsins tæki þó ekki nema að hluta mið af tillögu nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Það kemur fram að engin sátt er um hvað felst í hugtakinu þjóðareign. Menn geta sagt sem svo að það séu hagsmunaaðilar, það séu útgerðarmenn eða orkufyrirtæki eða slíkir aðilar sem dragi í efa að þetta hugtak sé rétt skilgreint og að þeir séu að gæta sinna eigin hagsmuna. En ég segi þá við hv. þingmenn, sem vilja nálgast málið þannig að þetta sé einhver óeðlileg hagsmunagæsla, — þá bendi ég hv. þingmönnum, sem þá skoðun hafa, á að lesa álit Orkustofnunar. Orkustofnun hefur engra hagsmuna að gæta annarra en þeirra að átta sig á því hvernig best er staðið að því að nýta þessar auðlindir sem hún er að rannsaka og hvernig hún eigi að koma að því. Það er Valborg Steingrímsdóttir lögfræðingur sem skrifar undir það álit og mér finnst það einhver gleggsta lýsingin á þeim vanda sem við er að glíma þegar um er að ræða skilgreiningu á því hvað felst í hugtakinu þjóðareign. Ég vil því hvetja hv. þingmenn til þess að kynna sér það álit sérstaklega því þeir geta örugglega lesið það án þess að vera haldnir þeirri skoðun að verið sé að gæta hagsmuna einhvers sem á einhverra sérstakra hagsmuna að gæta, hvort sem það eru útgerðarfyrirtæki eða orkufyrirtæki. Ég hvet menn til þess að lesa það og mun lesa það ef tíminn leyfir hér á eftir.

Þá telur minni hlutinn að hugtakið „náttúruauðlindir“ sem einnig er notað í 1. gr. frumvarpsins sé afar opið og óskilgreint með öllu hvað í því felst. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til skilgreiningar á auðlindum í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem og hugtaksins nytjastofnar á Íslandsmiðum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, og auðlinda á, í eða undir hafsbotninum, utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Þegar litið er til framtíðar má hins vegar búast við því að fram komi fjölmargar nýjar auðlindir sem hugsanlega verða skilgreindar sem náttúruauðlindir, og þá bendi ég aftur á umsögn Orkustofnunar. Engin tilraun er gerð í frumvarpinu eða af hálfu meiri hlutans til þess að ná utan um eða skilgreina með nokkrum hætti í hverju þær nýju auðlindir gætu falist. Minni hlutinn getur með engu móti fallist á að ljúka vinnu við þetta ákvæði í þessari óvissu.

Við víkjum síðan að hugtökum eins og „sjálfbær þróun“ og „líffræðileg fjölbreytni“. Látið er í veðri vaka að með því að fella brott greinar sem fjalla um sjálfbæra þróun og líffræðilega fjölbreytni sé verið að koma til móts við okkur sjálfstæðismenn. Í hinu orðinu er sagt að engin efnisumræða hafi farið fram í nefndinni. Þetta stenst ekki. Það var engin efnisumræða hafin í nefndinni þegar meiri hlutinn ákvað að taka þessar greinar út. Hvers vegna? Vegna þess að þær sættu svo harðri gagnrýni af hálfu allra umsagnaraðila og það vöknuðu fleiri spurningar en átti að svara þegar menn fóru að ræða um hvað fælist í hugtökunum „sjálfbær þróun“, „umhverfi sem stuðlar að heilbrigði“ og „líffræðileg fjölbreytni“ að meiri hlutinn ákvað einhliða að fella þetta niður án nokkurs samráðs við okkur sjálfstæðismenn og ekki í neinu samkomulagsskyni við okkur. Við vorum ekki farnir að tjá okkur neitt annað en að spyrja út í hvað þetta í ósköpunum þýddi og þeir sem hlýddu á þau svör hlutu að komast að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að setja þetta í stjórnarskrá. Það dytti engum í hug að setja þetta í stjórnarskrá. Ég skil ekki í ráðgjafarnefndinni, sem vill þó láta taka sig alvarlega, að hún skyldi setja þetta í stjórnarskrá. Mér dettur helst í hug að þetta ákvæði hafi verið sett í stjórnarskrá til þess að gleðja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, og þá eru menn nú illa settir að eltast við slík sjónarmið og ætla að koma þeim í stjórnarskrá enda er það það fyrsta sem fellur út. En auðvitað á eltingarleikurinn við Framsóknarflokkinn að leiða til þess að menn sjái að sér og felli ákvæðið um stjórnlagaþingið út. Það liggur í augum uppi.

Varðandi 2. gr. þá er þar lagt til að lögfest verði sú regla að breytingar á stjórnarskrá séu bornar undir atkvæði þjóðarinnar þar sem meiri hluta atkvæða þarf til að samþykkja slíkar breytingar, þó þannig að ávallt þurfi hið minnsta atkvæði 25 af hundraði kosningabærra manna. Er með þessu ætlunin að tryggja að breytingar nái lágmarksstuðningi kjósenda. Hjá umsagnaraðilum kom m.a. fram að rökstuðning skorti fyrir því að þessi leið væri valin og bent á ýmsar aðrar leiðir. Þar er Davíð Þór Björgvinsson nefndur til sögunnar í áliti okkar og einnig Ragnhildur Helgadóttir prófessor.

Telur minni hlutinn að lágmark samkvæmt ákvæðinu sé sett of lágt enda sé hætta á að stjórnarskrárbreytingar nái þannig fram að ganga með einungis stuðningi fjórðungs þjóðarinnar. Þá telur minni hlutinn að nauðsynlegt sé að lögfesta í ákvæðinu reglur sem tryggi vandaða málsmeðferð frumvarps til stjórnarskipunarlaga á Alþingi — vandaðri málsmeðferð en nú fer fram þar sem farið er á svig við öll meginsjónarmið um vandaða málsmeðferð. Þá yrði það lögfest og stjórnarskrárbundið að menn yrðu skyldugir til þess að ástunda hér vandaða málsmeðferð og spurning hvort þau ákvæði þurfi ekki að vera harðari en við lögðum til miðað við þá reynslu sem við höfum haft af störfum í þessari nefnd og hvernig menn hafa viljað traðka á stjórnarskránni og traðka á rétti Alþingis til að setja stjórnarskrá. Dæmalaust!

Þannig þurfi að setja skýrar og afmarkaðar reglur sem ætlað er að tryggja að svo verði, að meðferð við stjórnarskrá verði vönduð. Það veitir ekki af eftir að við höfum kynnst þeim leik sem við erum að ganga í gegnum núna. Með breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að frumvörp til breytinga á stjórnarskrá fari í gegnum fjórar umræður á þingi og ein vika hið minnsta líði milli umræðna. Minni hlutinn telur þetta vera langt frá því að tryggja að slíkt frumvarp fái þá umfjöllun og meðferð sem eðlilega verði að krefjast. Til þess þurfi til að mynda að líða lengri tími milli umræðna til að tryggja þingnefnd nægilegan tíma til að fjalla um málið. Það er það sem við höfum reynt hér á undanförnum vikum og séð og heyrt kvartanir umsagnaraðila, að enginn tími sé til að skoða þetta mál eða búa sér til ígrundaða afstöðu. Þá verður að tryggja að lýðræðislega kosnir fulltrúar á Alþingi séu slíku máli fylgjandi til að það nái fram að ganga og því telur minni hlutinn hugsanlegt að gera þá kröfu að aukinn meiri hluti stjórnarskrárgjafans sé fylgjandi breytingu á stjórnarskrá til að slík breyting fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. — Við höfum frá upphafi verið fúsir til þess að taka þessa grein sérstaklega og ganga frá henni við afgreiðslu þessa máls. Við höfum margoft lýst okkur fúsa til þess. Reynsla okkar í þessari málsmeðferð núna segir okkur að búa þarf mjög vel um hnútana í þessu til að tryggja eðlilega aðild og aðkomu allra, og betra þá að hafa slíkt ákvæði í stjórnarskránni að menn geti ekki vaðið hér fram eins og gert hefur verið við þessar breytingar.

Um 3. gr. segjum við: Minni hlutinn telur mikið skorta á að ákvæði 3. gr. frumvarpsins hafi verið rætt til hlítar í nefndinni. Mörg atriði þess eru óljós og óskýr, einkum þó hvað fallið getur undir skilgreininguna „tiltekin lög eða mikilvægt málefni sem varðar almannahag“, eins og meiri hlutinn leggur til í 1. mgr. 3. gr. — Það kemur fram hjá okkur að nokkrir umsagnaraðilar geri athugasemdir við ákvæðið og við teljum að í ákvæðinu þurfi að skýra nánar, með afmörkuðum dæmum, hvaða lögum eða hvers konar mikilvægum málefnum sé eðlilegt að vísa til samþykktar eða synjunar þjóðarinnar. Gerðar eru athugasemdir við prósentur, hve margir geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og annað. Samtök atvinnulífsins eru með sín sjónarmið og fleiri samtök eru með sjónarmið varðandi þetta sem ég ætla ekki að ítreka hér. Ég tel að 3. gr. sé efnisgrein sem eigi að bíða stjórnlagaþings ef menn ætla á annað borð að ryðja þessu hér í gegn, og þá ráðgefandi líka þegar þetta er efnisatriði sem á að taka fyrir eftir að við höfum samþykkt 2. gr. frumvarpsins um breytingar á 79. gr.

Síðan er það 4. gr., virðulegi forseti, sem ég hef gert hér að umfjöllunarefni þar sem ég hef talað um niðurlægingu Alþingis, að ætla sér að standa á því að Alþingi stígi til hliðar eins og meiri hlutinn vill — ýta Alþingi út og skapa þær aðstæður hér í þjóðfélaginu að það síðasta sé tekið frá Alþingi sem er lokavald til að ákveða hvernig staðið er að breytingum á stjórnarskránni. Að telja sér trú um að það sé það brýnasta sem nú blasir við þjóðinni að svipta Alþingi þessu valdi er dæmalaust, og að menn sem hafa ritað undir drengskaparheit að stjórnarskránni skuli flytja slíkar tillögur hér í þingsalnum, að svipta Alþingi þessu valdi.

Ég hélt, virðulegi forseti, satt að segja að ég þyrfti aldrei að standa hér í ræðustól og ræða mál á þessum grunni. En þetta mál er tilkomið til þess að þessi ríkisstjórn yrði til. Til þess að orðið yrði við óskum Framsóknarflokksins um að mynda þessa minnihlutastjórn þvert á þingræðisregluna. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, í sjálfu sér að rekja þetta hér því að það er náttúrlega líka búið að hnoða og teygja og toga þessar hugmyndir um stjórnlagaþingið á þann veg að það er ómögulegt að botna í því. Síðan er farið að búa til einhverjar reiknireglur í kringum það til þess að lækka kostnað sem var talinn 2.100 millj. kr., troða honum niður í 400–600 millj. kr., og síðan á að spara með því að hengja þetta utan á sveitarstjórnarkosningar. Að leggja það á fólk þegar það er að kjósa til sveitarstjórna árið 2010 að fara þá að kjósa persónukjöri fólk á stjórnlagaþing og varpa þannig skugga á sveitarstjórnarskosningarnar. Það er nýjasta tillagan. Af því það er talið að það muni kosta 25 millj. kr. í stað þess að kosningar almennt kosta á bilinu 160–200 millj. kr. Nei, þá er það fundið upp, án þess að bera það undir Samband íslenskra sveitarfélaga á nokkurn hátt eða nokkurn mann. Nefna það í aukasetningu á fundum nefndarinnar og láta síðan eins og haft hafi verið samráð við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar að því er fundið að þetta hafi ekki verið rætt. Þá er bara sagt: Ég nefndi það á fundi. Þeir sögðu að þetta hefði verið nefnt en það hefði komið svo á þá að þeir hefðu náttúrlega ekkert getað sagt. Ef litið er á þá þögn sem samþykki sýnir það best hvers lags hráskinnaleikur er hér leikinn vegna þessa máls.

Staðreyndin er að þetta er mjög illa unnið og illa undirbúið og í öllum flokkum eru andstæðingar þess að umrædd leið verði farin, ég fullyrði það. Sem betur fer eru hér þingmenn í öllum flokkum sem er misboðið þegar flutt er á þingi frumvarp sem miðar að því að þingið stígi til hliðar og láti stjórnarskrárbreytingar ekki framar til sín taka.

Virðulegi forseti. Ég les það sem segir í nefndaráliti okkar:

Minni hlutinn undrast, í ljósi þess að á undanförnum árum hefur verið rætt um veg og virðingu Alþingis og spurninguna um stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, að þeir sem mest hafa talað um að verið sé að styrkja stöðu Alþingis og efla á alla lund skuli standa að tillögu sem miðar að því að veikja Alþingi meira en nokkru sinni — að svipta Alþingi valdinu til að breyta stjórnarskránni. Það er hornsteinninn í valdastöðu Alþingis í stjórnskipulagi lýðveldisins að Alþingi hafi vald til að breyta stjórnarskránni. Nú koma þeir sem talað hafa um það að verið sé að setja Alþingi niður og flytja tillögu um að svipta Alþingi þessum rétti og fela það einhverjum öðrum. Með þessu eru komandi þing svipt stjórnskipulegu hlutverki sínu, samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar, eins og það ákvæði hefur verið allt frá lýðveldisstofnun.

Virðulegi forseti. Hvert er þetta vald flutt? Það er flutt í hóp manna sem aldrei mun bera ábyrgð gagnvart neinu. Hann verður kosinn í eitt skipti, breytir stjórnarskránni, getur gert það sem honum dettur í hug að því er virðist og fer svo. Þingmenn sitja þá hér og þurfa að berjast fyrir því ef þeir bjóða sig fram að ná endurkjöri. Þessi hópur þarf ekki að bera ábyrgð gagnvart nokkrum, hann bara kemur og ákveður, hann minnir svolítið á dómara. Þeim ber þó að fara að lögum, það er þó meginreglan að þeim ber að fara að lögum. En þessum mönnum ber bara að fara að því sem þeim dettur í hug og lögð er áhersla á að þeir kunni ekki neitt fyrir fram. Og deilur eru í ráðgjafarhópi ríkisstjórnarinnar um hvort þessir menn eigi að koma að auðu borði eða leggja eigi fyrir þá tillögur sem hafa verið unnar af sérfróðu fólki.

Fulltrúi Framsóknarflokksins í ráðgjafarhópnum vill að hópurinn komi að auðu borði, ekkert liggi fyrir, hann komi bara að auðu borði, setjist niður og segi: Ja, nú eigum við að semja nýja stjórnarskrá en hvaða aðferð eigum við að beita? Þetta vill fulltrúi Framsóknarflokksins. Fulltrúinn í ráðgjafarhópnum sem er löglærður og prófessor í lögfræði var þó þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að semja einhver gögn og leggja fyrir stjórnlagaþingið til þess að menn vissu þó kannski þegar þeir kæmu til þingsins hvað þeir ættu að ræða um. Fulltrúi Framsóknarflokksins í ráðgjafarhópnum taldi það ástæðulaust, það ætti bara að koma að auðu borði.

Við teljum að það sé með eindæmum hvernig að þessu máli er staðið og sama hvar drepið er niður. Við erum andvígir því að standa þannig að máli varðandi stjórnlagaþingið, teljum að það megi segja í greinargerð eða nefndaráliti, að ef hér yrði samkomulag gætu menn breytt 79. gr. stjórnarskrárinnar og sett það síðan að fela komandi þingi að taka ákvörðun um hvort það vilji kalla saman ráðgefandi stjórnlagaþing og það verði á valdi Alþingis að taka ákvörðun um það en Alþingi verði ekki svipt réttinum í málinu.

Virðulegi forseti. Samantekt okkar um málið er þannig:

Sérnefnd um stjórnarskrármál hefur undanfarna daga haft til umfjöllunar frumvarp flutt af fulltrúum fjögurra þingflokka á Alþingi þar sem lagðar eru til þrjár breytingar á stjórnarskrá auk viðbótarákvæðis um stjórnlagaþing. Frumvarpið er flutt sem liður í pólitískum hrossakaupum við myndun núverandi ríkisstjórnar til að fá Framsóknarflokkinn til að verja ríkisstjórnina vantrausti.

Í umræðum um málið og málsmeðferð nefndarinnar hefur orðið ljóst að:

a. málið er vanbúið enda gáfust sérfræðinganefnd einungis þrjár vikur til að vinna tillögur um málið og fjórar vikur hafa gefist til þinglegrar meðferðar,

b. ekki er fyrir hendi víðtæk samstaða um málið og afgreiðslu þess eins og jafnan hefur verið undanfarin 50 ár. Þvert á móti er málið flutt og afgreitt úr nefnd í miklu ósætti,

c. ekki er fyrir hendi samstaða meðal umsagnaraðila málsins um gildi þess,

d. fjölmörg sjónarmið og athugasemdir hafa komið fram frá sérfræðingum við frumvarpið sem þarfnast að mati minni hlutans frekari skoðunar,

e. fjölmargir umsagnaraðilar vekja athygli á óljósri hugtakanotkun og vafa við túlkun einstakra ákvæða, sem valdið geti réttaróvissu og málarekstri fyrir dómstólum,

f. ekki er nein samstaða innan nefndarinnar um greiningu á kostnaði við lagasetninguna.

Með hliðsjón af þessu viljaleysi meiri hlutans til að leita samkomulags við minni hlutann og því að skammur tími er nú til loka þings og mörg mikilvæg mál á dagskrá þess fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu telur minni hlutinn ekki raunhæft að ljúka með fullnægjandi hætti efnislegri umfjöllun og ná sameiginlegri niðurstöðu um ákvæði frumvarpsins að svo stöddu.

Minni hlutinn leggur því til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Þar sem færð hafa verið gild rök fyrir því að ekki sé raunhæft að ljúka með fullnægjandi hætti efnislegri umfjöllun og ná sameiginlegri niðurstöðu um ákvæði frumvarpsins að svo stöddu samþykkir Alþingi að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 1. apríl 2009. Björn Bjarnason, Sturla Böðvarsson, Birgir Ármannsson og Jón Magnússon. — Þetta er álit okkar.

Ef þessar umræður hefðu farið fram í gær, 1. apríl, hefði maður kannski haldið að þetta væri aprílgabb, en því miður er þetta ekki aprílgabb, þetta er miklu alvarlegra mál en svo. Þetta er í rauninni gabb gagnvart þjóðinni fyrst og síðast. Með þessu er látið eins og verið sé að bjarga einhverjum málum sem komu hér upp vegna bankahruns, það er stóra gabbið í þessu. Það sem er hins vegar verið að gera með þessu er að bjarga þeirri lélegu ríkisstjórn sem hér situr og tryggja að Framsóknarflokkurinn, sem sagðist standa að henni til að ljúka málum á þinginu 12. mars, hangi þó með henni til 2. apríl eða ég veit ekki hve lengi. Því ég trúi ekki og ég heiti á hv. þingmenn að koma í veg fyrir að þessi ósköp gangi yfir Alþingi, að þessi tillaga meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrá nái fram að ganga og það verði fleiri en ég sem átti sig á því að vegið er að sjálfri stjórnskipuninni með þeim hætti að við hv. þingmenn brjótum í bága við það drengskaparheit sem við gáfum þegar við settumst hér. Ein hátíðlegasta stundin á þingi er þegar nýir þingmenn koma til setu í þingsalnum og gengið er til þeirra með möppu og þeir beðnir um að undirrita drengskaparheitið. Það er ein hátíðlegasta stundin sem við erum vitni að hér í þessum sal.

Nú stöndum við hér og fjallað er um tillögu sem gengur þvert á það heit okkar að standa vörð um stjórnarskrána. Við erum að vega að stjórnarskránni, við erum að vega að stjórnskipuninni, við erum að grafa undan virðingu Alþingis og við erum að vega að heiðri Alþingis. Það stendur í áliti meiri hluta nefndarinnar að það sé eðlileg krafa að Alþingi víki til hliðar, stígi til hliðar þegar sjálf stjórnarskráin er annars vegar og ekki er gefinn neinn tími til að fjalla um málið. Það á bara að koma því í gegn og valta yfir okkur í minni hlutanum. Ekki er einu sinni gefinn tími til þess að ræða um önnur mál miklu brýnni fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu til að þoka málum áfram. Nei, allt kapp er lagt á að þetta mál komi á dagskrá til að hægt sé að halda áfram að valta yfir okkur sjálfstæðismenn.

Menn átta sig ekki á því að þeir eru að valta yfir heiður Alþingis, valta yfir þeirra eigin undirskriftir um drengskaparheitið við stjórnarskrána þegar þeir standa að málum með þessum hætti. Er það virkilega svo að sómakennd þingmanna sé þannig að þeir ganga í senn á svig við sín eigin heit og gabba þjóðina, láta eins og með þessu séu þeir að koma til móts við einhver meginsjónarmið sem hafi komið upp meðal þjóðarinnar?

Ég tek undir það sem kom fram í útvarpsviðtali við hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur — það er engu líkara en að runnið hafi eitthvert æði á fólk, æði sem birtist núna í því að Alþingi sé ýtt til hliðar, það sé það brýnasta sem þurfi að gera í landinu. Hverjir hafa bent á það? Hvaða aðilar hafa komið að máli við hv. þingmenn eða aðra og bent á að nú sé það eina málið sem þjóðinni sé til bjargar að Alþingi stígi til hliðar?

Virðulegi forseti. Ég legg eindregið til að frumvarpið verði fellt og að þessum umræðum verði lokið sem fyrst svo við þurfum ekki að verja tíma okkar í þetta.