136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:14]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af ræðu hv. þingmanns að dæma mátti ráða að þetta frumvarp væri svo afleitt að hvergi væri hægt að koma nálægt því, þannig flutti hv. þingmaður mál sitt. Nú segir hann hins vegar að hann sé tilbúinn að styðja aðrar greinar, (Gripið fram í.) já, já, ég er að segja það, nú segir hv. þingmaður að hann sé tilbúinn að styðja 2. gr. og leggur til að sett verði á laggirnar ráðgjafarþing um endurskoðun á stjórnarskránni. Hv. þingmaður er þá einnig þeirrar skoðunar að vert sé að leggja í vinnu um endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Þá eru tvö ákvæði eftir, þ.e. þjóðareign á auðlindum, og væntanlega er þá hv. þingmaður að tala gegn því að auðlindir verði færðar í þjóðareign, sem er þó tíu ára gömul umræða sem upphaflega á rót sína að rekja til starfs auðlindanefndar sem skilaði skýrslu árið 2000, og sá er hér stendur átti sæti í. Hv. þingmaður talar gegn því þrátt fyrir að í tveimur síðustu ríkisstjórnum, sem hv. þingmaður átti sæti í, var í stjórnarsáttmálanum kveðið á um að slíkt ákvæði yrði sett.

Hitt ákvæðið sem hv. þingmaður er þá væntanlega á móti, ef marka má ræðu hans áðan, er að þjóðin eða almenningur geti knúið á um að setja tiltekin mál í þjóðaratkvæði með tilteknum hætti. Í grunninn er hv. þingmaður að segja, eftir alla þessa orðræðu sem hér var flutt upp undir klukkustund eða meira, að hann sé fyrst og fremst andvígur því að auðlindir komist í þjóðareign og þjóðin fái rétt til þess að setja ákveðin mál í þjóðaratkvæði og segja álit sitt á því. Svona skil ég hv. þingmann eftir að hafa hlýtt á hann í einar 60 mínútur flytja mál sitt eins og hann gerði áðan.