136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:46]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill þannig til að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei haft hreinan meiri hluta á Alþingi. Allt tal hv. þingmanns um ofurvald Sjálfstæðisflokksins dæmir sig því sjálft, gagnvart þeim sem hafa setið á Alþingi og verið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, dæmir þá ef til vill þá sem hafa unnið með Sjálfstæðisflokknum fremur en Sjálfstæðisflokkinn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft mikið fylgi og hefur mikið fylgi meðal íslensku þjóðarinnar vegna hugsjóna flokksins, vegna þeirrar stefnu sem flokkurinn hefur fylgt og það er ekki sú stefna sem hefur valdið veraldarhruni á bankamarkaði. Hugleiðingar þingmannsins um vald eða það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið ótæpilega með vald sitt eru algerlega órökstuddar og ómálefnalegar og þingmanninum til skammar.