136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ellert B. Schram virðist hafa gleymt því að jafnaðarmenn hafa stjórnað landinu einn þriðja hluta þeirra 18 ára sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd. Engu að síður reyndi hv. þingmaður að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt það sem aflaga fór og mér þótti miður að hlusta á hv. þingmann hvítþvo útrásarvíkingana sem bera mikla ábyrgð á því efnahagshruni sem hér átti sér stað. Ég vil benda á að Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem sett hefur spurningarmerki við það sem útrásarvíkingarnir gerðu. Það hefur Samfylkingin ekki gert, (Gripið fram í.) ekki í fyrri Borgarnesræðunni, ekki þeirri síðari og núna kemur hv. þm. Ellert B. Schram, fyrsti fulltrúi (Gripið fram í.) Samfylkingarinnar í þessari umræðu, (Forseti hringir.) og hvítþvær útrásarvíkingana. Það finnst mér sorglegt, frú forseti, sorgleg framganga þessa gamla vinar okkar sjálfstæðismanna í þessari umræðu.