136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:50]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Það er alveg rétt að hv. þingmaður nefndi aðra flokka til sögunnar og nefndi að þeir bæru einhverja ábyrgð en undirtónninn í ræðu hv. þingmanns fannst mér ósmekklegur, afar ósmekklegur og ekki honum sæmandi. Mér fannst ósmekklegt að reyna að klína allri sök á Sjálfstæðisflokkinn eins og hann gerði. Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur sett spurningarmerki og gert athugasemdir við framferði stórra auðhringja á Íslandi. Hann hefur í þeirri viðleitni sinni þurft að eiga við stjórnmálaflokk eins og Samfylkinguna sem alltaf hefur gripið til varna (Gripið fram í.) fyrir þessa aðila. Það gerði hv. þm. Ellert B. Schram, líkt og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, gerði í frægum Borgarnesræðum sem hún hélt. (Forseti hringir.) Og það er miður (Gripið fram í.) að þetta sé erindi Samfylkingarinnar í þessari umræðu. Það er mjög miður.