136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að sleppa því að svara hnútukasti hv. þm. Ellerts B. Schrams í garð Sjálfstæðisflokksins og reyna frekar að átta mig á efni málsins. Það er rétt að við erum að ræða frumvarp til stjórnarskipunarlaga og við eigum að halda okkur við það. Ég velti fyrir mér hvert samhengið er í þeim árásum á Sjálfstæðisflokkinn sem fólust í ræðu hv. þingmanns og nauðsyn á breytingum á þessum tilteknu ákvæðum stjórnarskrár sem hér er um að ræða. Ég átta mig ekki alveg á því.

Það sem ég vildi aðallega spyrja hv. þingmann um er að jafnvel þótt við séum sömu skoðunar og hv. þingmaður, að atburðir vetrarins kalli á breytingar á stjórnarskrá spyr ég: Hvað veldur því að þessar tilteknu breytingar eru nauðsynlegar núna fyrir þinglok, hvað kallar á þær núna, hvers vegna getum við ekki látið okkur nægja að breyta ákvæðinu í stjórnarskránni sem fjallar um breytingar á stjórnarskrá og taka okkur (Forseti hringir.) góðan tíma til að fjalla um hina þættina?