136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:59]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir afar miður að heyra að það hefði verið samningsgrundvöllur til að halda eftir 79. gr. og þannig hefðu menn sameinaðir getað gengið betur frá stjórnarskránni. Mér þykir mjög miður að menn hafi ekki reynt að vinna í þá átt og komast að sameiginlegri niðurstöðu allra flokka, afskaplega miður. Sérstaklega þegar núna kemur í ljós, og það væri gott að vita hvernig sú umræða varð í nefndinni, að ekki sé líklegt að stjórnlagaþingið, ef af verður, muni verða að veruleika fyrr en einhvern tímann á næsta ári, jafnvel ekki fyrr en um mitt ár 2010. Þess þá heldur spyr maður: Til hvers þurfti endilega að setja það af stað núna? Af hverju var ekki hægt að láta nýtt þing ræða það gaumgæfilega þannig að umræðan í þjóðfélaginu gæti farið fram. Það eru afskaplega fáir sem átta sig á því í hverju þetta stjórnlagaþing felst. Við skuldum líka fólkinu það að það taki þátt í umræðunni og við séum ekki núna að æða langt á undan því við breytingu á stjórnarskránni þegar umræðan um þetta hefur ekki farið fram í stofnunum þjóðfélagsins.