136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:01]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Komið hefur fram mjög eindregin andstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins við málið. Það fer ekki á milli mála. Beitt er málþófi í ólíklegustu málum og það nýmæli felst í því málþófi að því er beitt í málum sem Sjálfstæðisflokkurinn styður.

Fram kemur hávær gagnrýni á formsatriði og undirbúning að þessu frumvarpi. En ég vil nota tækifærið, frú forseti, og fjalla um efnisatriði því að ég tek undur orð hv. þm. Ellerts B. Schrams, að vilji til sátta var fyrir hendi og meira en svo. Ég sá í hendi mér að hægt væri að ná sátt um málið ef sjálfstæðismenn hefðu haft á því hug. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það og víkja að greinum frumvarpsins. Tökum 1. gr. sem kveður á um að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign og þær megi ekki selja eða framselja með varanlegum hætti.

Er efnislegur ágreiningur um þessa grein? Hún byggir á þrotlausu og mjög vönduðu starfi auðlindanefndar. Hún felur í sér skýrt lögfræðilegt inntak. Færustu sérfræðingar okkar í lögfræði velkjast ekki í vafa um hvað er í húfi. (Gripið fram í: Þeir deila mjög um …) Og í tveimur stjórnarsáttmálum Sjálfstæðisflokksins hefur verið eindreginn ásetningur og vilji flokksins með þáverandi samstarfsflokkum sínum til að setja í stjórnarskrána slík ákvæði, um að náttúruauðlindir væru þjóðareign.

Síðast kom þessi eindregni vilji og von Sjálfstæðisflokksins fram í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem lagt var fram á 133. löggjafarþingi 2006–2007, á þskj. 1064 sem var 683. mál þingsins. Í því segir nákvæmlega það sama efnislega: Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign. Sá munur er á að þar var ekki framsalsákvæði. Það hefur breyst frá þeim stjórnarsáttmálum sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að og frá þessu frumvarpi.

Það er rétt að segja frá því að andstaða við þetta frumvarp var fyrst og síðast um 1. gr. Hún var fyrst og síðast (Gripið fram í.) um 1. gr. frá þeim sem umsagnir gáfu. Það geta allir séð sem kynna sér umsagnir málsins og í samantekt um umsagnir sem hinir ágætu nefndarstarfsmenn tóku saman fyrir nefndina. Ég vil nota tækifærið til að þakka riturum nefndarinnar sérstaklega fyrir vel unnin störf á þessum vettvangi. Þar var mjög hörð gagnrýni gagnvart 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins í upphaflegum búningi um að nýta náttúruauðlindir á grundvelli sjálfbærrar þróunar, og gagnvart 3. mgr. um að allir eigi rétt á umhverfi sem stuðlar að heilbrigði og líffræðilegri fjölbreytni.

Kjarni gagnrýni í umsögnum kom fram á þessi ákvæði. Þessi ákvæði eru hins vegar í takt við réttarþróun allt frá Stokkhólmsráðstefnunni 1973, Ríó-ráðstefnunni 1991–1992 og Árósasamningnum frá 1998. Þessi ákvæði um sjálfbæra þróun, heilbrigði og líffræðilega fjölbreytni endurspeglast svo í nýlegum tilskipunum ESB og hafa verið tekin upp í norsku og finnsku stjórnarskránni. En þetta er réttarþróun á sviði mannréttinda sem komin er heldur styttra á veg hér á landi þó að orðin „sjálfbær þróun“ hafi verið í íslenskri löggjöf að ég hygg nú um sextán ára skeið, allt frá því að lögin um Evrópska efnahagssvæðið voru sett.

En umræða um þessi tvö ákvæði hefur ekki þroskast með sama hætti á Íslandi og vonandi verður þetta frumvarp til þess að það geri það, en vel að merkja til sátta. Til að draga úr þeirri gagnrýni sem fram kom ákvað meiri hluti nefndarinnar að einbeita sér að 1. mgr. um náttúruauðlindir í þjóðareign, málefni sem allir flokkar á þingi höfðu áður eða nú lýst vilja sínum til að færa inn í stjórnarskrá. Maður spyr þá sjálfan sig: Af hverju er þessi breyting núna?

Sumir héldu því fram og halda því fram að með því að leggjast gegn þessu ákvæði vilji menn færa fiskveiðiauðlindirnar endanlega undir ættarveldi eða undir fáa einkaeignaraðila. Þeir hafa nýtingarrétt sem auðvitað má breyta eða minnka eða auka með málefnalegum, eðlisrökréttum hætti en þeir hafa ekki beinan eignarrétt að auðlindinni. Maður spyr sig hvort svo sé.

Að því er varðar 2. gr. verður að segja alveg hið sama. Ég las það að minnsta kosti út úr umræðum í nefndinni, sem sjálfstæðismenn gáfu því miður ekki mikið færi á að ræða efnislega — ég kallaði eftir því á fleiri en einum fundi nefndarinnar að þetta yrði rætt efnislega. En því miður varð það ekki svo.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þó sammála þessu ákvæði og hafa lýst því í ræðu. Það var eingöngu hin tæknilega útfærsla, orðalag, sem sætti gagnrýni. Og hvernig brást þá hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, við? Ég vil að gefnu tilefni taka fram að hún stóð sig með mikilli prýði við formennskustörfin og ég þakka henni hér og nú fyrir þau störf. Það er eðlilegt og sjálfsagt að það komi líka inn í þingsöguna. Það segi ég vegna þess að hv. þingmaður varð í störfum nefndarinnar fyrir mjög ómaklegri gagnrýni sem mér fannst óréttmætt og ósmekklegt og ég harma það. Ég gagnrýndi það á fundi nefndarinnar.

Það er sem sé sátt um 2. gr. og hv. formaður nefndarinnar hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafði forgöngu að því til sátta að færa orðalagið til þess vegar sem hún taldi að nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins gætu betur við unað. Hún færði orðalagið í þá veru sem það kom frá stjórnarskrárnefnd á vegum fyrri ríkisstjórnar og reyndar alls Alþingis, sem var starfandi á árunum 2005–2007, ef ég man rétt. Þar var tekið upp þetta orðalag. Það er því sátt um 2. gr. Þá vék ég að 3. gr., að Alþingi skuli láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni ef ákveðið hlutfall kjósenda krefst þess.

Slík ákvæði er jafnframt að finna í stjórnarskrám þeirra landa sem við berum okkur saman við. Á því eru ýmsar útgáfur og ég skildi nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins ekki betur en svo að þeir féllust á að eðlilegt væri að slíkt ákvæði kæmi inn í stjórnarskrána. Þá varð það aftur tæknilegt atriði, spurning um orðaval eða spurning um útfærslu um það grundvallaratriði að geta, eins og aðrar þjóðir hafa gert, fært valdið til þjóðarinnar í umræðum um mikilsverð málefni. Ég hygg að báðar þessar greinar, 2. gr. og 3. gr., séu einkar mikilvægar í ljósi framtíðar Íslands og þeirrar stefnu sem við munum taka í framtíðinni.

Flestar lýðræðisþjóðir sem við viljum bera okkur saman við hafa sem sé ákvæði um að færa þjóðinni það vald að taka ákvarðanir um mikilsvert mál í þjóðaratkvæði. Það kallast, ef ég man rétt, milliliðalaust lýðræði.

Þá er komið að 4. gr. um stjórnlagaþingið. Þar var skýr efnislegur ágreiningur um hvort þingið ætti að hafa stjórnarskrárvaldið, valdið til breytinga, eða ætti að vera ráðgefandi. Um það má eflaust deila og um það má eflaust ná sátt ef menn vilja, að samspilið milli Alþingis og stjórnlagaþings sé annað og meira.

En aðkoma Alþingis að breytingunum er trygg að mínu mati. Vilji þingmenn Sjálfstæðisflokksins tryggja það betur er eðlilegt að koma með gagntillögur í þá veru. Ég minni líka á þann hemil eða þá girðingu sem sett er í ákvæðinu um að það þurfi tvo þriðju hluta stjórnlagaþingsins til að samþykkja breytingar eftir að hafa fengið umsögn Alþingis. Og ekki nóg með það, síðan á eðlilega að færa hina endanlegu niðurstöðu til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Ekki er það flóknara.

Umræðan hér er að mínu mati afar sérstök að því leyti að hún fjallar allt of mikið um form og fer allt of mikið í málþóf á meðan vilji er fyrir hendi. (SKK: Hver er í málþófi?) Ég ætla að nefna, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, umræðuna í gærkvöldi og fram á nótt sem ég hélt í fyrstu að væri aprílgabb þangað til hún stóð fram yfir miðnætti. (Gripið fram í: Var það málþóf? …) Já, það var málþóf því að hv. þm. Kjartan Ólafsson lýsti því yfir að hér væri beitt því nýmæli sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Gripið fram í.) hefðu ekki beitt áður, að vera með málþóf í máli sem þeir væru með. (Gripið fram í: 20 mínútur. Hvernig væri að þingmaðurinn … í staðinn fyrir að vera hér með einhverja sleggjudóma?) Efnið snýst um að ræða aðkomu þingmanna Sjálfstæðisflokksins að málinu, hina formlegu ástæðu, og ræða hana efnislega.

Hér er verið að færa vald til þjóðarinnar. Það er meginatriðið, og ákvæðunum er ætlað að stuðla að milliliðalausu lýðræði enn fremur. Það hefur líka sýnt sig og það hefur líka reynst þannig að til þessa stjórnlagaþings er beinlínis kosið í þeim eina tilgangi að semja tillögur til breytinga á stjórnarskrá. Það er eina verkefni þessa þings sem Alþingi hefur reynst erfitt í gegnum árin að koma fram með.

Ég vil síðan, frú forseti, vísa til greinargerðarinnar hvað þetta varðar. Þar stendur orðrétt með leyfi frú forseta:

„Því hefur verið haldið fram að með því að setja á stofn sérstakt stjórnlagaþing sé vegið að sjálfstæði og áhrifum Alþingis sem farið hefur með hlutverk stjórnarskrárgjafa um árabil. Eðlilegt sé að það hlutverk verði áfram í höndum Alþingis auk þess sem stofnsetning stjórnlagaþings sé kostnaðarsöm og tímafrek framkvæmd. Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi á að vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur staðið nánast óslitið yfir frá lýðveldisstofnun árið 1944 með takmörkuðum árangri. Aðstæður í þjóðfélaginu eru auk þess með þeim hætti eftir bankahrunið í október 2008 að almenningur kallar eftir gagnsæi og trausti í störfum ráðamanna. Stjórnarskránni er m.a. ætlað að kveða á um valdmörk Alþingis og því óeðlilegt að það setji sér sjálft þau mörk. Krafan um að Alþingi stígi til hliðar þegar að því kemur að setja þær nýju leikreglur samfélagsins sem felast í nýrri stjórnarskrá er því svo rík að réttlætanlegt verður að teljast að stjórnarskrárgjafarvaldið verði tímabundið fært frá Alþingi til annars stjórnarskrárgjafa sem sérstaklega er kosinn til þess starfs.“

— Hefur ekki önnur verkefni. Það er kjarni málsins. Það er kjarni málsins að eftir efnahagshrunið 6. október á síðasta ári búum við í nýjum raunveruleika, ekki bara efnahagslega heldur þurfum við að endurskoða öll gildi, okkar lýðræðislegu hugmyndir og hugsjónir, öll gildi og lýðræðið frá botni.

Því er líka haldið opnu að umræðan og verklag stjórnlaganefndarinnar verði fyrir opnum tjöldum, að tíðkað verði opið lýðræði með beinni aðkomu almennings þannig að sem flestir geti komið ábendingum sínum og skoðunum á framfæri á einfaldan og opinskáan hátt. Að það skapist lýðræðisleg og kvik umræða meðal þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Þetta er nýjung í löggjafarstarfi á Íslandi og hefur verið reynd áður og þarf að þróa áfram. (Gripið fram í.) Frú forseti. Hv. þingmenn sem grípa fram í hafa ræðutíma á eftir, (Gripið fram í.) og ættu að sýna ræðumönnum hér í stólnum, þeim sem hafa andstæða skoðun, þá virðingu að vera ekki að grípa fram í. (Gripið fram í.)

Aðalatriðið er þetta, frú forseti, að verið er að færa valdið til þjóðarinnar.