136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:27]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel fullkomlega eðlilegt að setja inn náttúruauðlindaákvæði í stjórnarskrána vegna þess að efnislega eru allir flokkar sammála því. Allir flokkar eru sammála því, ef ég tek það fram, að fiskveiðiauðlindin verði ekki einkaeign. Þar gildi nýtingarréttur en ekki beinn einkaeignarréttur.

Ef stjórnlagaþingið kemst að annarri niðurstöðu, þá það, en þetta er eitt hálmstráið í viðbót. Ef stjórnlagaþingið ætlar að afnema Alþingi eða hafa einn þingmann — hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal ekki meiri trú á þjóðinni og þeim mannauði sem í henni býr og sérfræðingum í stjórnlagaskipan? Hefur hv. þm. Pétur Blöndal ekki lesið það upplegg sem stjórnlagaþingi er sett varðandi þá efnisþætti sem það á að fjalla um? Við ætlum að byggja á lýðræði, þrískiptingu ríkisvalds. Ætlar hv. þm. Pétur H. Blöndal stjórnlagaþingi að ganga þvert á það og afnema þingræði og lýðræði? Hvers konar þjóð heldur hv. þingmaður að hann eigi við? Þekkir hann ekki þjóð sína? Treystir hann ekki þjóð sinni?