136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér mislíkaði þegar hv. þm. hélt því fram að ég hefði stundað málþóf í gær þegar ég talaði um hugðarefni mín í 20 mínútur en ég ætla ekki að elta ólar við hv. þingmann um það.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Atli Gíslason hélt því fram að orðin „náttúruauðlindir í þjóðareigu“ væru skýr og inntak þeirra orða væri skýrt. Ég veit að hv. þingmaður er ekki bara alþingismaður, hann er líka hæstaréttarlögmaður og ég geri ráð fyrir því að hann hafi fylgst með umræðu um hugtakið „þjóðareign“ sem verið hefur á síðustu tíu árum. Það hafa verið gefnar út bækur um þessi mál.

Ég hef lesið þær umsagnir sem borist hafa þinginu þar sem því er haldið fram, m.a. af Sigurði Líndal prófessor í lögfræði, að merking þessara orða og hugtaka sé óljós og taka fleiri undir þessi sjónarmið. Ég velti því fyrir mér hvernig hv. þingmaður getur faglega staðið undir þeim yfirlýsingum sem hann gaf í ræðu sinni og hvort hann er virkilega þeirrar skoðunar að hugtakið „þjóðareign“ í skilningi þessa frumvarps sé svo skýrt að inntak þess sé hafið yfir allan vafa, eins og hér hefur verið haldið fram.

Hv. þingmaður hefur verið talsmaður þess að verkferlar hér á Alþingi séu faglegir og að hér séu viðhöfð vönduð og gegnsæ vinnubrögð, ekki síst lýðræðisleg vinnubrögð. Ef við skoðum þær umsagnir sem liggja fyrir í þessum málum vara nánast allir umsagnaraðilar við því að stjórnarskránni sé breytt með þeim hætti sem hv. þingmaður leggur hér til. Ég hlýt að spyrja hann í ljósi þeirra orða sem fram koma í þessum umsögnum, fyrir utan umsögn BSRB, (Forseti hringir.) hvort hann telji verjanlegt og eðlilegt gagnvart stjórnarskránni að henni sé breytt (Forseti hringir.) með þeim hætti sem þingmaðurinn leggur til.