136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:33]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, já, ég tel það verjandi, enda stend ég að þessu meirihlutaáliti.

Að því er varðar málþófið í gærkvöldi um kvikmyndastuðninginn komu hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í ræðustól hver á fætur öðrum og margsinnis sumir hverjir til þess eins að styðja stjórnarfrumvarp. Ég hef aldrei orðið vitni að því áður. Ég hélt að það væri 1. apríl-gabb þangað til komið var fram yfir miðnætti.

Inntakið í „þjóðareign“ er algjörlega skýrt í mínu augum, það vil ég taka fram. Ég ber mikla virðingu fyrir Björgu Thorarensen prófessor sem var í ráðgjafarnefndinni, sem skýrði fullkomlega fyrir mér það sem ég taldi mig vita áður um það inntak. Ég velkist ekki í neinum vafa um það inntak fremur en Geir H. Haarde, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, fyrrverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þegar þeir lögðu fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga á þinginu 2006–2007 um að náttúrauðlindir Íslands skyldu vera þjóðareign. Svo orðaðist það þannig að gætt yrði réttinda einstaklinga samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það velkist ekki fyrir mér og ég hef engar áhyggjur af því. Með þeirri þjóðareign er hvergi vegið að réttindum einstaklinga, einstaklingsfrelsi eða eignarréttarhugtökum sem stjórnarskráin byggir á.