136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður nefndarinnar hefur nú flutt tvær ræður hér og seinni ræðan sýnir vel hvers vegna ekki náðist samkomulag í nefndinni. Afstaða hv. þingmanns til Sjálfstæðisflokksins og til þess sem við höfum verið að segja og skilningsleysi hv. formanns nefndarinnar á tillögum okkar og öllu okkar máli í þessu frá upphafi sýnir að það var í raun og veru tilgangslaust að vinna nokkuð innan nefndar undir formennsku hv. þingmanns.

Síðan er komið hér og látið í það skína að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins lítum of stórt á okkur til að taka þátt í eðlilegu samstarfi og talað í þessum dúr áfram, sem sýnir aðeins að hv. formaður, sem ég hef sagt og endurtek hér, hafði ekki neina burði til að veita þessari nefnd formennsku (Gripið fram í: Hvers konar málflutningur er þetta?) og leiða málið til lykta. Málflutningurinn hér er á þann veg að það var aldrei neinn vilji af hálfu formannsins (Forseti hringir.) að leita eftir samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn.