136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í 79. gr. sem verður 81. gr. verður heimild til Alþingis að breyta stjórnarskrá og í ákvæði til bráðabirgða er heimild til að setja stjórnlagaþing sem eigi að breyta stjórnarskránni. Það eru sem sagt tvö þing sem eiga að breyta stjórnarskránni samtímis.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann aftur: Af hverju eru menn að breyta stjórnarskránni ef það stendur til að breyta henni, t.d. varðandi auðlindirnar og varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu?

Þá langar mig líka til að spyrja hversu bundið er hið nýja þing og hversu bundið er Alþingi, sem fær endurnýjað umboð eftir 3 vikur, af þeim reglum sem settar eru, á síðu 33, um nýtt lagafrumvarp um kosningar til stjórnlagaþings? Til dæmis það að ekki skuli vera orð um mannréttindi í tilgangi þingsins, þar er ekki orð um mannréttindi sem ég held að sé aðalatriði stjórnarskrár?