136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki sagt að margt nýtt hafi komið upp annað en það að mér fannst það skýrara núna, eftir að hv. þm. Björn Bjarnason hafði talað, að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætla sér að styðja 2. gr. eða ég skildi það þannig. En til að sýna einskæra lipurð vil ég alltaf halda því opnu að hægt sé að ná saman um breytingar ef vilji er til þess.

Hvað það varðar að framsóknarmaður hafi stýrt þeirri nefnd sem síðust starfaði — í raun er hún enn að störfum, ég veit ekki til þess að umboðið hafi verið lagt niður eða sú nefnd — þá var ég að tala um að sjálfstæðismenn hefðu verið í forustu í nánast öll þau skipti sem stjórnarskránni hefur breytt á síðustu 50 árum.