136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:42]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, sjálfstæðismenn hafa látið sig stjórnarskrána varða á Alþingi svo það er ekkert undarlegt að sjálfstæðismenn hafi verið í forustu fyrir þeim mikilvægu breytingum sem hafa verið gerðar í gegnum árin. Og þá er rétt að minna hv. þingmenn Framsóknarflokksins á að það hafa verið gerðar breytingar á stjórnarskránni, vegna þess að þeir hafa sumir hverjir látið að því liggja að aldrei hafi verið gerðar breytingar á stjórnarskránni. (Gripið fram í: Hverjir eru það?) Hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði það hér í ræðu og fleiri hafa gert það.

Ég vil bara undirstrika og endurtaka þá ábendingu til hv. þingmanns, formanns sérnefndarinnar, að hún beiti sér þá fyrir því að leitað verði samkomulags og að því komi einnig aðrir fulltrúar frá stjórnarflokkunum þannig að gerð verði alvara úr því að ná samkomulagi um þetta mikilvæga mál í staðinn fyrir að halda því fram eins og (Forseti hringir.) gert hefur verið og gera tilraun til þess að efna til mikils ófriðar í þinginu.