136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:24]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi langar mig til að vita og fá nánari skýringu á því sem hv. þm. Bjarni Benediktsson minntist á um réttarstöðu útgerðarmanna. Það er nauðsynlegt, þar sem nýkosinn formaður Sjálfstæðisflokksins er hér að tjá sig, að bæði þingheimur og þjóðin öll skilji hvað hann á við og hvernig hann túlkar stöðuna. Auðlindir í þjóðareign eru auðvitað mikið mál, að því sé haldið þar til haga og hvernig menn túlka það. Hér er bent á vafaatriði í lögfræði um að túlkun á því sé misjöfn og þess vegna legg ég áherslu á að hann útskýri fyrir þingheimi og þjóðinni allri hvað hann á við með því að það þurfi nánari útlistingu á réttarstöðu útgerðarmanna, þá væntanlega varðandi kvótann, gef ég mér.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki virt mannréttindi. Fyrir liggur álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um að brotið hafi verið á íslenskum sjómönnum og á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn gerði hann ekkert í því í rúmt ár.

Atriðið um þjóðaratkvæðagreiðslu — það er náttúrlega ljóst að mínu mati að það þarf að vera í þessum lögum. En síðan eru nokkrir þættir sem ég reikna með að fá svar við í seinna andsvari mínu, en hún varðar það að verið sé að formbreyta stjórnarskránni. Síðan eru landsfundarsamþykktir sjálfstæðismanna, sem lúta að gjafakvótakerfinu, og ýmislegt í þeim dúr sem væri fróðlegt að heyra um og fá nánari skýringar á.