136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það væri fróðlegt að gefa sér góðan tíma í að ræða ýmislegt sem fjallað er um í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins. Mig langar til að vísa fyrst og fremst til þess frumvarps sem lagt var fram á þingi vorið 2007, um skilgreiningu á hugtökum sem farið er með í 1. gr. þessa máls, um hugtakið sameign þjóðarinnar, um það hvaða réttarstöðu slíkt ákvæði hefði í stjórnarskránni ef það kæmi þar inn. Ég ítreka þann ágreining og þann skoðanamun sem var í nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar um það hvort með lögfestingu slíks ákvæðis væri verið að breyta réttarstöðunni eða ekki. Ég væri mjög þakklátur ef hv. þingmaður gæfi sína skoðun á því hvort hann teldi mikilvægt að fá slíkt ákvæði í stjórnarskrána til að hreyfa við réttarstöðunni eins og hún er í dag.

Hverju er verið að breyta með því að færa slíkt ákvæði í stjórnarskrá? Hvað er það sem hugtakið sameign þjóðarinnar felur í sér í raun og veru? Þjóðareign? Hvernig stendur hugtakið þjóðareign í samanburði við ríkiseign og einkaeign? Hvar fellur það í þessari flokkun? Er það kannski þannig, eins og ég rakti í ræðu minni áðan, að þegar búið er að flysja hýðið af þjóðareignarhugtakinu stendur í raun og veru einungis eftir sú hugsun að auðlindir undir forræði íslenska ríkisins skuli nýta til hagsbóta fyrir þjóðina alla? Það er minn skilningur á ákvæðinu. Nú væri gott að heyra hvað hv. þingmaður hefur um það að segja.