136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður býsna óskýr og fyrir honum vera mjög óljóst hvað mundi í raun og veru gerast við innleiðingu 1. gr. Hann talaði um að væntanlega mundi þetta vera svona og væntanlega hinsegin.

Ég tók það fram í máli mínu áðan að ég geri ekki athugasemdir við lög um stjórn fiskveiða þar sem fiskveiðiauðlindin er lýst sameign þjóðarinnar. Ég geri ekki athugasemdir við það að frumvarpið eins og það lá fyrir þinginu árið 2007 yrði fært í stjórnarskrá. Ég tel hins vegar að það mundi hafa afskaplega litlar efnislegar breytingar á réttarstöðunni.

Ég get vel stutt þá grunnhugsun sem kom fram í máli hv. þingmanns en það sem út af stendur er inntak hugtaksins þjóðareign. Það er það sem út af stendur, þ.e. því sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson neitaði að svara í andsvari áðan og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom ekki heldur að því í fyrirspurn sinni en það skiptir miklu máli. Er verið að breyta réttarstöðunni eitthvað? Um það þarf að ræða.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslurnar þá ítreka ég það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að Sjálfstæðisflokkurinn er þeirrar skoðunar að auka þurfi aðkomu almennings að stórum ákvörðunum með því að festa í lög ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur.