136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að ég hef þekkt hv. þm. Bjarna Benediktsson af góðu einu. Hann hefur komið upp í ræðustól, yfirleitt yfirvegaður, ekki talað niður til fólks og haft uppi málefnalegar ræður það sem ég hef þekkt hann, þau 6 ár sem ég hef verið á þingi. En í kjölfar landsfundarins er kominn hér gjörbreyttur stjórnmálamaður sem talar niður til þess mikla starfs sem framsóknarmenn hafa unnið að undanförnu undir forustu Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, sem stýrði sérstökum lýðræðishópi sem fór yfir þá hugmyndafræði sem liggur á bak við stjórnlagaþingið. Hv. þingmaður lét að því liggja að hér væri um einhverja tækifærismennsku að ræða hjá framsóknarmönnum sem hafa unnið að þessu máli um margra mánaða skeið.

Ég vildi koma þeirri leiðréttingu hér að að svo er ekki. Mér finnst það ekki fara hv. þingmanni að tala eins og henn gerði hér. Það á að bera virðingu fyrir vinnu fólks, sama hvort menn eru sammála henni eða ósammála á endanum. Ég vil sérstaklega benda á málflutning sumra sjálfstæðismanna sem hafa ýjað að getu einstaklinga til þess að leiða þennan hóp eða getu annarra þingmanna, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson rakti hér áðan. Ég vil segja það hér að ég tel að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi staðið sig mjög vel sem formaður þessarar nefndar. (Gripið fram í.) Menn geta svo verið sammála eða ósammála í efnisatriðum en hv. þingmaður hefur staðið sig mjög vel og mér finnst það einkenni valdhroka og yfirgangs að tala til hv. þingmanns sem og til framsóknarmanna með þeim hætti sem hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði í afar slakri ræðu hér áðan. (Gripið fram í.)