136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

um fundarstjórn.

[20:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með viðbrögð hæstv. forseta við þeim spurningum sem hér hafa komið fram. Hér hafa komið fram spurningar frá ýmsum þingmönnum varðandi það hvernig fundi verði fram haldið fram eftir kvöldi og bent á það að auðvitað eru nefndarfundir í fyrramálið og þingmenn hafa skyldum að gegna þar.

Við sjálfstæðismenn veigrum okkur ekkert við því að taka þátt í umræðum fram eftir kvöldi en það skiptir hins vegar máli fyrir okkur að fá einhverja vitneskju um það hver áform forseta eru í þessu sambandi. Það undrar mig ef hv. forseti getur ekki gefið okkur, eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson orðaði það, einföld svör við einföldum spurningum.