136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

um fundarstjórn.

[20:34]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Nú eru liðnar rúmar 20 mínútur frá því að ég bar fram einfalda spurningu. Ég fór fram á það við hæstv. forseta að miðað yrði við það að umræður stæðu ekki lengur en til milli kl. 11 og 12 í kvöld. Ég tel það reyndar spurningu um virðingu Alþingis fyrir sjálfu sér, og því mikilvæga máli sem hér er til umræðu, að við séum ekki um hánótt að fjalla um það hvernig stjórnarskrá lýðveldisins skuli vera háttað.

Ég ber það mikla virðingu fyrir stjórnarskrá lýðveldisins að ég tel mjög mikilvægt að þjóðin geti fylgst með þeim umræðum sem fram fara um stjórnarskrána. Ég geri því þá kröfu, fer fram á það við virðulegan forseta, að hann hlutist til um það, svari þingmönnum og taki tillit til þeirra óska sem hér hafa komið fram um að fundur standi ekki lengur en (Forseti hringir.) fram yfir kl. 11 en þá verði þingfundi (Forseti hringir.) frestað til morgundagsins. Ég tek undir (Forseti hringir.) með þeim hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig (Forseti hringir.) um þetta atriði, það (Forseti hringir.) skiptir gríðarlegu máli að menn viti hvað stendur til (Forseti hringir.) og geti skipulagt tíma sinn.