136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

um fundarstjórn.

[20:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi vinnubrögð verulega ámælisverð. Hér er mjög eðlilega spurt spurninga um vinnutíma þeirra sem hér eru. Vinnudagurinn hefur verið langur undanfarnar vikur. Við sem ætlum að vera við þessa umræðu og taka þátt í henni upplifum það hér að ekki er tekið tillit til spurninga okkar og þeirra óska sem komið hafa fram. Það er ekki hlustað á þetta.

Við upplifum þetta líka í nefndastarfi þar sem umræðutími er ekki gefinn til að ljúka almennum umræðum um mál áður en þau eru afgreidd út úr nefndum. Við upplifðum það í nefndastörfum í vikunni að mönnum var hreinlega vísað á dyr áður en þeir voru búnir að svara spurningum.

Þetta vekur upp spurningar um það, virðulegi forseti, hvers konar vinnubrögð eru farin að tíðkast undir stjórn þeirra vinstri manna sem komnir eru í stjórn í þinginu. Þetta er alveg með ólíkindum. Ég hvet forseta til að skoða hug sinn vel og gefa þingmönnum ítarlegri svör en hann hefur (Forseti hringir.) fært hér fram.