136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[20:40]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var athyglisverð umræða sem hér fór fram og kom mér á óvart að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem ég held að ég geti leyft mér að segja að stjórni því hvað umræðan verður löng, kvörtuðu yfir því að umræðan væri löng. (ArnbS: Nei, nei.) Þau voru ómöguleg í ræðustól yfir því að þurfa að vera eitthvað fram eftir. (Gripið fram í: Ha?) (ArnbS: Af hverju segirðu það? Það er fullkomlega eðlilegt að ræða stjórnarskrána. Það tekur langan tíma.) Virðulegi forseti. Af því að hér er gjammað fram í — það var ekki að heyra á máli þeirra hv. þingmanna sem vældu eins og stungnir grísir (Gripið fram í.) að þeir væru (ArnbS: … bara lygar.) ánægðir eða spenntir yfir því að halda áfram að ræða jafnmikilvægt mál og frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Það kom mér á óvart að þeir skyldu kvarta undan því að við þyrftum að vera eitthvað fram eftir.

Hv. þingmenn eru harðduglegir og munu einskis láta ófreistað að koma sjónarmiðum sínum að þegar fram líða stundir. Ég vil bara (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Við erum mjög dugleg.) lýsa ánægju minni með það.

Virðulegi forseti. Erindi mitt í ræðustól var ekki að gleðjast yfir eða lýsa ánægju minni með framgöngu sjálfstæðismanna í málþófi sínu, (Gripið fram í.) heldur hitt að taka til umræðu frumvarp til stjórnarskipunarlaga og fara aðeins yfir nokkur atriði sem komið hafa fram. Umræðan sem hefur nú staðið í nokkrar klukkustundir hefur dregið það fram, sem er afar athyglisvert, að þrátt fyrir allan hávaðann, alla reiðina og þau stóru orð sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa látið falla í umræðunni er það í reynd þannig að þeir eru innst inni meira og minna sammála þeim breytingum sem verið er að gera. Í umræðunni hefur komið fram að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að auðlindir séu í sameign þjóðarinnar. Það kom fram hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, sem nýverið var kosinn forustumaður í Sjálfstæðisflokknum, að hann telur, og lýsti mikilli ánægju sinni með það í ræðu áðan, að auðlindir sjávar væru í sameign þjóðar og að fleiri auðlindir ættu að vera þar. 1. gr. í þessu frumvarpi gengur út á að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti skuli vera í þjóðareign. Það er grundvallaratriði sem er í 1. gr. og augljóslega alveg í takt við það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni sem nýverið var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins.

Ég lýsi ánægju minni með það og held að styttra sé á milli sjónarmiða meiri hluta og minni hluta á þingi. Vel má vera að það sé ekki stórmál að ná saman með Sjálfstæðisflokknum en það kann að vera að ræður þeirra, reiði, hávaði og stóryrði eigi rætur sínar að rekja til þess að þeir áttu ekki frumkvæði að því að gera þessar breytingar á stjórnarskránni. Ég held að við getum fundið taktinn við að ná saman.

Það eru nokkur atriði, virðulegur forseti, sem mig langar að fara aðeins yfir: Í fyrsta lagi langar mig að ræða þá fullyrðingu sem ítrekað hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að hér sé verið að niðurlægja Alþingi. Þar hefur gengið manna lengst hv. þm. Björn Bjarnason sem hefur fullyrt að þær hugmyndir sem uppi eru feli í sér niðurlægingu Alþingis. Hv. þingmaður á þá við stjórnlagaþingið. Ég ætla að byrja á því. Hvað er verið að gera? Hér er verið að færa þjóðinni það vald að kjósa sér fulltrúa á stjórnlagaþing og síðan greiða um það atkvæði hvort hugmyndir stjórnlagaþings um nýja stjórnarskrá verða að veruleika. Með öðrum orðum er verið að færa valdið til þjóðarinnar. Hvaðan kemur valdið? Hvar er uppspretta valdsins? Það er hjá þjóðinni. Hvar annars staðar getur uppspretta valdsins verið?

Ef það er niðurlæging fyrir Alþingi að fara með valdið til þjóðarinnar, veit ég ekki í hvaða farveg umræðan er komin. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leyfa sér að tala á þennan hátt án þess að blikna. Þeir leyfa sér að segja að færa eigi valdið frá Alþingi. En hvaðan fær Alþingi valdið? (Gripið fram í.) Er nema von að þeir flýi eins og fætur toga úr salnum þegar á að ræða þessi mál við þá í fúlustu alvöru og verið er að tala um annað en málþóf og kjánaskapinn sem þeir hafa sýnt af sér í umræðunni að undanförnu?

Í þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir er einnig talað um aðkomu þingsins. Vel má vera að gera megi einhverjar breytingar á þessu til að gera þá aðkomu jafnvel meiri. En það er algerlega fráleitt að tala um niðurlægingu Alþingis þegar valdið er fært út til fólksins. Það er ekki boðleg röksemdafærsla í umræðu af þessum toga.

Mig langar að segja, af því að hér kemur hv. þm. Birgir Ármannsson í salinn sem einn þeirra sem hefur tjáð sig á þennan hátt, að Alþingi hefur aldrei endurskoðað stjórnarskrána frá grunni, aldrei nokkurn tímann. Alþingi kaus hins vegar 1942 sérstaka milliþinganefnd sem fékk það hlutverk að gera breytingar á stjórnarskránni áður en lýðveldið var stofnað 1944 og nefndin fékk einnig það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána. Með öðrum orðum kaus Alþingi milliþinganefnd til að gera það. Í þessu tilviki er lagt til að þjóðin kjósi fulltrúa í persónukjöri á stjórnlagaþing og taki síðan afstöðu til stjórnarskrárinnar.

Hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þykir það sennilega minni niðurlæging ef Alþingi heldur völdunum hjá sér, kýs sína milliþinganefnd og tekur svo sína ákvörðun. Ráða hefur mátt af málflutningi þeirra hv. þingmanna að valdið sé sprottið frá þinginu. Það er ekki þannig, valdið kemur frá þjóðinni. (Gripið fram í: En búið að búa allt of lengi hjá Sjálfstæðisflokknum.) Og valdið kemur heldur ekki frá Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í: Nei.) Það kemur frá þjóðinni. (Gripið fram í.) Það er afar mikilvægt í þessari umræðu að við ræðum þessa hluti eins og þeir eru en ekki á þann hátt sem verið hefur. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flúið í formið, þeir hafa algjörlega forðast að ræða efnið. Þeir hafa flúið í formið undir fororði um að hér væri á ferðinni niðurlæging fyrir Alþingi sem er algjörlega fráleitt, (Gripið fram í.) það er algjörlega fráleitt að tala um það á þeim nótum.

Ég byrjaði áðan ræðu mína á að fara yfir 1. gr. frumvarpsins og dró þá fram að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, teldi afar eðlilegt að auðlindir væru í sameign þjóðarinnar. Hann hafði hins vegar athugasemdir í ræðu sinni við orðið þjóðareign af því að hann taldi það lítt útskýrt hugtak eins og fleiri telja. Í mínum huga er það afar skýrt. Við getum sagt að hér sé um að ræða ríkiseign sem heitir þjóðareign alveg eins og eignarréttindi hafa ýmis nöfn, til að mynda ítak, afnotaréttur o.s.frv. Eignarréttur hefur mismunandi heiti. Í þessu tilfelli tölum við um þjóðareign. Og hvað felst í þjóðareign? Í þjóðareign felst að ríkisvaldið, þ.e. varsla þessara réttinda, er hjá Alþingi, og ríkisstjórn eftir atvikum, og það er lykilatriði að þessar auðlindir verða ekki seldar varanlega. Þær verða ekki látnar af hendi varanlega, það er einkenni á þeim eignarrétti sem í þessu felst. Þá eiga hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, í stað þess að flýja í formið, í stað þess að segja að þeir skilji ekki hugtakið, að koma upp og segja: Nei, við viljum ekki að í stjórnarskrá sé ákvæði um að auðlindir verði ekki látnar varanlega af hendi. Þá væru þeir farnir að tala efnislega um það sem skiptir máli.

Við höfum kallað eftir því í umræðunni að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi og ræði málið á þeim nótum.

2. gr. í þessu frumvarpi — þetta er ekki stórt frumvarp þó að það innihaldi stórt efni, hér er verið að ræða um stjórnarskrána. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa komið upp í öllum hávaðanum, í öllum látunum og öllum stóryrðunum og sagst vera fylgjandi þeirri grein og tilbúnir að standa að henni. Þá erum við búin að fara yfir tvær greinar af fjórum og hugmyndafræðilega eru þeir fylgjandi 1. gr., líka 2. gr. og þá er spurningin um 3. gr.

Hvert skyldi vera hið hættulega efni í 3. gr.? Hvað skyldi vera svo ógnvænlegt, hvað er að varast? Jú, það er að þjóðin fái aukinn rétt til þess að koma að ákvörðunum, þ.e. fái aukinn rétt til þess að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um stór mál sem lúta að almannahag, að 15% þjóðarinnar, eftir tilteknum reglum, geti óskað eftir því að stór mál sem lúta að almannahag gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu. (BJJ: Guð forði okkur.) Það er ógnin. Þarna er hættan. Það skyldi þó ekki vera að eitthvert smávald væri tekið af þinginu. Kannski felst niðurlæging þingsins í því að þjóðin hafi eitthvað um málið að segja, eins og hv. þm. Björn Bjarnason sagði og hótaði því og lofaði að hann skyldi tala um niðurlægingu þingsins meðan þetta mál væri á dagskrá, sem sagt að valdið væri fært til þjóðarinnar þar sem uppspretta þess er.

Þetta er 3. gr. frumvarpsins að meginstofni til, að almenningur geti í auknum mæli knúið fram atkvæðagreiðslu um mál er lúta að almannahag.

Þessar þrjár greinar kalla náttúrlega fram stóryrði, fúkyrði, og sagt að verið sé að valta yfir þingið.

Þess ber einnig að geta — ég nefndi það ekki áðan — að 1. gr. hefur verið í umræðu í u.þ.b. 11 ár, umræðan hófst í auðlindanefnd sem starfaði frá 1998–2000. Það hafa verið skrifaðar heilu bækurnar og ritin um þetta, stjórnarskrárnefnd sem starfaði á árunum 2005–2007 fór mjög vel yfir þetta.

Sú stund rennur upp að það þarf að taka afstöðu. Umræðunni um þetta er lokið, nú verða menn bara að taka afstöðu og þá er spurningin, hv. þm. Birgir Ármannsson: Vilja sjálfstæðismenn setja ákvæði í stjórnarskrá sem gengur út á það að auðlindir verði ekki látnar varanlega af hendi? Þá eiga menn bara að segja heiðarlega: Nei, við viljum það ekki. Þá erum við farin að tala um þetta efnislega, tala um efnisleg ákvæði í stjórnarskrá, gildi og innihald. Það er það sem við viljum ræða, það er það sem skiptir máli og það sem við viljum við kalla fram.

Þetta eru þær þrjár stórhættulegu greinar sem við erum að tala um, í fyrsta lagi grein sem rædd hefur verið í 10–11 ár í mörgum nefndum og mikið skrifað um, í öðru lagi ákvæði sem við erum sammála um og svo hættulega ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Svo erum við komnir að 4. gr. sem lýtur að stjórnlagaþingi sem ég fór aðeins yfir áðan. Stjórnlagaþing er í eðli sínu aðeins aðferðafræði, ef ég má nota það orð, við að endurskoða stjórnarskrána. Það eru ýmsir möguleikar í þessum efnum, við getum fengið nokkra fræðimenn til að kíkja á málið og gera tillögur eins og við gerðum 1942. Er það niðurlæging þingsins, hv. þm. Birgir Ármannsson? Felst einhver niðurlæging í því að kalla til nefnd?

Ég held ekki, ekki frekar en þetta. Hér er verið að tala um að einstaklingar geti boðið sig fram á stjórnlagaþing til að vinna að endurskoðun á stjórnarskránni. Það er aðferðafræði. Ég er ekki að segja að þetta sé endilega besta aðferðafræði í heimi en það eru margar leiðir til. Þetta er ein þeirra, að fólkið í landinu, þaðan sem uppspretta valdsins er, kjósi einstaklinga á stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána.

Hv. þingmenn hafa sagt að gallinn við þetta sé að Alþingi afsali sér þar með stjórnarskrárvaldinu. Það er rétt svo langt sem það nær en Alþingi sækir líka vald sitt til fólksins og í þessu tilviki er verið að færa fólkinu þetta vald. Að því leytinu til … (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það var ágætt að fá þetta frammíkall. Það á að leggja niður þingið. (Gripið fram í.) Er einhver ástæða til að kjósa? (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur valdið, (Gripið fram í.) er einhver ástæða til að fara til fólksins og spyrja hverjir eigi að sitja á þingi? (Gripið fram í: Nei, við skulum bara hætta þessu.) (ArnbS: Hver er tillagan frá þér?) (Gripið fram í: Um hvað snýst þetta?) Það er alveg með ólíkindum, ef þjóðin fær aukna aðkomu að ákvarðanatöku til að breyta stjórnarskránni felur það sjálfkrafa í sér að við skulum bara leggja þingið niður. Þetta er afstaðan, þetta er viðhorfið. (Gripið fram í: Þú ert að tala um nýtt þing …) Ég er ekki að tala um — (ArnbS: Á stjórnlagaþing að hafa löggjafarvald eða ekki, já eða nei?) Enn og aftur er hér frammíkall, það er smám saman að renna upp fyrir mér að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki lesið þetta frumvarp sem við erum að tala um. (Gripið fram í: Ó, jú.) Frammíkallið ber þess glögg merki, nú ætla ég að fara yfir það. Stjórnlagaþingið sem kosið verður til af fólkinu í landinu, í persónukjöri, 41 í persónukjöri, fær það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána. Það er hlutverk þess. Í því felst ekkert löggjafarvald, nei. Hins vegar felst í því réttur til að leggja fyrir þjóðina tillögu að nýrri stjórnarskrá. Í því felst ekki löggjafarvald, í því felst réttur til að leggja tillögu um nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina. Hvað er svona stórhættulegt við það?

Hvar liggja allar hinar stórkostlegu hættur í þessu máli? (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn …) Ég verð bara að játa, virðulegi forseti, að eftir að hafa hlýtt — og ég einsetti mér strax í dag að fylgjast mjög vandlega með málflutningi sjálfstæðismanna vegna þess að þeir hafa verið það stóryrtir og gott ef þeir hafa ekki haldið sérstakan blaðamannafund um að þetta sé svo ómögulegt mál — að reyna að átta mig á því hvar ég fór út af sporinu. Ég styð nefnilega málið, ég sat og sit í þeirri sérnefnd sem fjallaði um málið. Hvar yfirsást mér svona stórkostlega? Ég einsetti mér strax í morgun að hlýða mjög vandlega á málflutning sjálfstæðismanna til að reyna að átta mig á því hvar mig hefði borið af leið.

Ég er smám saman að átta mig á því að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa í raun og veru kannski ekki alveg, að minnsta kosti ekki allir, sett sig vandlega inn í málið. Alla vega sé ég ekki þær hættur sem þeir sjá.

Ég sé að hv. þm. Birgir Ármannsson situr hér og hann á einnig sæti í sérnefndinni. Ég beindi til hans einni spurningu áðan og mig langar að bæta við fyrirspurn. Það er ekki þannig að ég sýni hv. þingmanni nokkurn dónaskap með því að beina til hans fyrirspurn, ég sá að hann hafði óskað eftir því að veita andsvar og þess vegna langar mig að beina til hans fyrirspurn. Hann ræður hvort hann svarar henni. Ég spurði hann áðan hvort hann væri þeirrar skoðunar að auðlindir ætti ekki að láta varanlega af hendi, sem er hið hættulega inntak hugtaksins þjóðareign, og mig langar einnig að spyrja hann í hverju ótti hans liggur gagnvart því að þjóðin komi frekar að málum. Mig langaði að beina til hans þessum tveimur spurningum af því að hér er um efnisatriði að ræða. Mér sýnist að það sé stutt á milli okkar í 2. og 4. gr. og ef ágreiningur um 1. og 3. gr. byggir á misskilningi, held ég, virðulegi forseti, að ekki sé langt í að við getum náð hér saman og gengið út í vorið hönd í hönd í samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni. Að því væri mikill sómi fyrir þingið, ég tala nú ekki um fyrir okkur hv. þingmenn sem erum hér á síðustu metrum þingferils okkar, að geta endað þingið í sátt og samlyndi og greitt úr þeim misskilningi sem virðist svífa hér yfir vötnum.

Ég er sannfærður um að smám saman mun orðræðan fara úr forminu og yfir í efnið og þegar hún kemst þangað held ég að ekki sé langt á milli okkar í þessu máli. Ég hvet sjálfstæðismenn eindregið til að koma til móts við okkur því að það er svo stutt á milli okkar í þessu öllu saman.