136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:03]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom aðeins inn á það í máli mínu áðan að stjórnlagaþingið hefur rétt til þess að gera tillögu til þjóðarinnar um endurskoðun eða nýja stjórnarskrá þannig að stjórnlagaþingið sjálft breytir ekki stjórnarskránni. Stjórnlagaþingið sendir Alþingi, eins og málið lítur út núna, tillögu sína og óskar eftir umsögn. Að þeirri umsögn lokinni þarf 2/3 hluta fulltrúa á stjórnlagaþingi til að samþykkja tillöguna og að því loknu er hún lögð fyrir þjóðina sem tekur endanlega ákvörðun um það hvort stjórnarskránni skuli breytt. Í þeim skilningi hefur stjórnlagaþingið ekki rétt til að breyta stjórnarskránni en það hefur rétt til þess að leggja fram tillögu til breytinga á stjórnarskránni fyrir þjóðina.