136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þingmaður hefur lengi haft áhuga á ákvæðinu um þjóðareignina og það hafa margir haft. Það sem við höfum hins vegar gagnrýnt í þessu er að ríkisstjórnin ákveður að gera tilteknar breytingar á stjórnarskránni. Hún setur í gang vinnu þar um sem skilar sér í frumvarpi sem hér er lagt fyrir þingið. En það er fyrst þegar málið er komið á það stig að frumvarp liggur fyrir í drögum að sjálfstæðismenn eru kallaðir til viðræðu um málið og þá ekki um hvaða breytingar á að gera heldur eru þeir beðnir um að taka afstöðu til tillagna sem þegar eru fullmótaðar eða svo til fullmótaðar. Það er mjög mikið frávik frá öllum vinnubrögðum í sambandi við stjórnarskrárbreytingar á Íslandi og í flestum löndum sem við berum okkur saman við.

Ég heyrði ekki svar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar við spurningu minni um hvort hann væri sáttur við þessi vinnubrögð og sáttur við að vera í forsvari fyrir (Forseti hringir.) það að rjúfa þá sátt og þær hefðir sem gilt hafa um stjórnarskrárbreytingar á Íslandi.