136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Talandi um siðferði þá er hin siðferðislega spurning sem uppi er sú: Af hverju eru stjórnarflokkarnir og meiri hlutinn í þinginu að gera stjórnarskrána að pólitísku átakaskjali? Það er siðferðislega spurningin. Af hverju er verið að brjóta hálfrar aldar sátt um það hvernig við breytum stjórnarskránni?

Það var ekkert við okkur talað. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fara á einn fund hjá stjórnarskrárnefndinni undir forustu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Þetta voru ekki samræður, þetta var eintal og það var valtað ekki bara yfir gesti, heldur líka yfir okkur sem (Gripið fram í.) vorum í … (Gripið fram í.) Ég mætti bara á einn fund.

Það sem ég vil hins vegar (Gripið fram í.) segja, hæstv. forseti, fulltrúar þjóðarinnar — mér finnst miður að heyra hv. þingmann, sem er að ljúka annars ágætum ferli sínum sem þingmaður, tala um sig ekki sem fulltrúa þjóðarinnar. Við erum öll fulltrúar þjóðarinnar hér inni og við erum að tala um breytingu á lögum nr. 30/1944 (Forseti hringir.) og þess vegna tel ég vont þegar við heyrum, aðferðafræðin við stjórnlagaþingið, (Forseti hringir.) þetta er bara aðferðafræði. (Forseti hringir.) Mér finnst ekki við hæfi eða sómi af því að taka af Alþingi þetta vald sem það hefur í dag.