136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:13]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að svara þessu andsvari því að röklegt samhengi var ekki mikið í því. Þó var tvennt sem ég man. Hið fyrra var það að líklega sé ekki til pólitískara skjal en stjórnarskráin, þar eru grundvallarreglur samfélagsins og þar er tekist á um grundvallaratriði. Þess vegna er eðlilegt að tekist sé á um breytingar í stjórnarskrá, það er ofur eðlilegt að tekist sé á um grundvallaratriði.

Hitt vil ég líka nefna að mér finnst ekki sanngjarnt að hv. þingmaður komi hér og gaspri um það að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem stóð sig afburðavel … (Gripið fram í: Það eru skiptar skoðanir á því.) Já, menn geta haft skiptar skoðanir en menn verða að hafa einhver rök fyrir skoðunum sínum. (Gripið fram í: Hvar er …?) Kjarni málsins er þessi: Hv. þingmaður stóð sig afburðavel og enginn kvartaði (Forseti hringir.) undan fundarstjórn hv. þingmanns að undanskildum einum eða tveimur fulltrúum (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokksins og það var aldrei vaðið yfir neina gesti.