136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvær spurningar. Hv. þingmaður gat um það í ræðu sinni að við séum búin að ræða um auðlindir, sameign þjóðarinnar o.s.frv. í 11 ár og hann lýsti því yfir að nú sé umræðum lokið. Einhliða lýsti hann yfir: Umræðum er lokið, við skulum afgreiða málið.

Hvað er hins vegar búið að ræða stjórnlagaþingið lengi? Það var ekki minnst á það einu orði í vinnu stjórnarskrárnefndarinnar sem var opin landsmönnum öllum. Það talaði ekki einn landsmaður um stjórnlagaþing, ekki einn, og það var ekki einu sinni minnst á þetta í ríkisstjórninni sem við vorum saman í. Finnst hv. þingmanni þriggja mánaða umræða um stjórnlagaþing vera til þess bær að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að taka löggjafarvaldið af Alþingi? Það er ekki verið að gera neitt annað.

Það var í fyrsta lagi þetta varðandi stjórnlagaþingið: Er þetta næg umræða, er hún nægilega víðtæk? Hv. þingmaður nefndi að 11 ár um auðlindir dugi en duga þrír mánuðir (Forseti hringir.) til að breyta stjórnarskránni varðandi stjórnlagaþingið?