136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:19]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var akkúrat þetta sem ég vildi fá fram. Hv. þingmaður viðurkenndi að enginn munur væri á því að færa valdið til fólksins með Alþingi eða stjórnlagaþingi. Þess vegna spyr ég hvaða tilgangi þjónar þá að setja sérstakt stjórnlagaþing og taka stjórnlagavaldið af Alþingi?

Þarna endurspeglast sá grundvallarmunur og sú algera blekking sem hv. þingmenn sem fylgja þessu máli fram eru að reyna að byggja upp hjá þjóðinni. Blekkja þjóðina með því að halda því fram að verið sé að færa vald til hennar. Ýta Alþingi til hliðar og þykjast færa valdið til þjóðarinnar. Þingmenn eiga ekki að ganga með þessum hætti fram hér á hinu háa Alþingi.