136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:22]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í tilefni af ummælum sem hafa fallið í dag [Hlátur í þingsal.] um hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur verð ég að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það að reyndir þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli standa hér bláir í framan af belgingi og reyna að gera lítið úr hv. formanni nefndarinnar sem er með mikla þingreynslu og hefur komið mörgum, góðum og brýnum málum til leiðar með eða án sjálfstæðismanna. (Gripið fram í.)

Það veldur mér sérstökum vonbrigðum að standa hér, ég hef ekki setið á þingi nema í fimm mánuði, og verða vitni að því að af mönnum sem hér hafa setið hér svo áratugum skiptir, reyndar með nýjan foringja í bandi, leki fýlan af því að þeir eru ekki aðal lengur. (Gripið fram í: O, vei!) Það er pínlegt að horfa á þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa hér í löngum biðröðum eftir að komast í ræðustól þingsins til að rövla í stað þess að nýta tímann með markvissari og faglegri hætti.

Hvernig stendur á því, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að þingmenn Sjálfstæðisflokksins reyna að koma í veg fyrir að málefni stjórnarskrárinnar komist hér á dagskrá? (Gripið fram í.) Hvernig stendur á því? Hvers vegna skyldu þeir ekki hafa fagnað í gær tækifærinu sem felst í því að taka málið á dagskrá til að tjá sig með málefnalegum hætti um þetta mikilvæga mál? (Gripið fram í.) Er það vegna þess að þeir eru rökþrota? Vegna þess að þeir treysta sér ekki til að segja þjóðinni hvað þeim býr í brjósti? Þora þeir ekki að segja þjóðinni að þeir telji sjálfa sig best til þess fallna að segja henni hvað henni er fyrir bestu? (Gripið fram í.) Er Sjálfstæðisflokkurinn hinn útvaldi sem hefur alltaf ráðið málefnum stjórnarskrárinnar og þess vegna má ekki breyta út af þeim vana?

Horfa ber til þess að þau mál sem hér eru borin á borð hafa verið til umræðu um áratuga skeið, að stjórnlagaþingsmálinu undanskildu. Það mál er hins vegar afleiðing af því að fjórir stjórnmálaflokkar af fimm hér í þinginu hafa ákveðið að 65 ára gamalli tilraun til breytinga á stjórnarskránni sé lokið. Ekki er rétt að leyfa Alþingi að gera frekari tilraunir að svo stöddu og þjóðin sem hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi er rétti aðilinn til að taka þessi mál í fangið og setja nýjar reglur. Líka fyrir stjórnmálamenn og kannski ekki síst þá sjálfstæðismenn sem sitja hér svoleiðis að það lekur af þeim fýlan af því að völdin eru ekki þeirra lengur.

Tími er kominn til að brjóta niður gamlar valdablokkir eins og þær sem fyrirfinnast í Valhöll og sjálfstæðismenn geta verið í allri þeirri fýlu sem þeim dettur í hug. Ég get lofað því að hugsandi fólk í þessu samfélagi sér í gegnum þau leikrit sem sett eru á svið hér daglega og það fólk mun væntanlega ekki verðlauna sjálfstæðismenn fyrir fíflaganginn með atkvæði sínu þann 25. apríl.

En þá skulum við horfa til þess hvers vegna eðlilegt er að þjóðin taki þetta mál í fangið og hvers vegna stjórnmálamenn eins og þeir sem skipa Sjálfstæðisflokkinn eiga að una því að sett verði á stjórnlagaþing þjóðinni til heilla.

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að Ísland er lýðveldi og valdið liggur í samfélaginu hjá fólkinu og verður ekki rakið neitt annað. Við höfum valið að þrískipta ríkisvaldinu og þingbinda stjórnina. Ein stoðin er fólgin í því að kjósa umboðsmenn sem í daglegu tali eru nefndir alþingismenn til að fara með það vald að setja leikreglurnar. Önnur stoðin framkvæmir svo þær leikreglur í gegnum framkvæmdarvaldið, sem í daglegu tali er kallað ráðherrar. Þriðja stoðin er svo hið óháða og sjálfstæða dómsvald. En allt þetta vald hvílir á stjórnarskránni.

Styr hefur staðið um stjórnarskrána undanfarið og raunar mun lengur því tilraunir til breytinga á henni hafa staðið allt frá því að hún var sett. Þó nokkrar stjórnarskrárnefndir hafa starfað um lengri eða skemmri tíma og skilað í heildina heilmiklu starfi, þó líklega sýnu mestu sú sem Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, stýrði. (Gripið fram í.) Þessar nefndir hafa allar verið skipaðar á forsendum stjórnmálaflokkanna og einmitt þess vegna er árangurinn (Gripið fram í.) enn þá rýr. Vegna mismunandi stefnu þeirra og sjónarmiða ná þeir ekki þeim árangri sem þjóðin kallar eftir nema að litlu leyti.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er enn byggð að miklu leyti á sáttmálanum sem gefinn var af danska konunginum árið 1874 og tekur mið af dönsku fyrirkomulagi eins og það var á þeim tíma. (Gripið fram í.) Slíkt er óásættanlegt og veldur reglulega deilum. Það getur t.d. ekki talist eðlilegt að menn deili með reglulegu millibili um hlutverk og völd forseta lýðveldisins.

Eignarhald þjóðarinnar á auðlindum hennar verður að vera tryggt. Þjóðin þarf að ákveða í hvaða tilvikum hún sjálf vill taka þátt í ákvarðanatökum um stór mál í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu og réttaröryggi borgaranna verður að vera tryggt með gagnsæjum, sanngjörnum og lýðræðislegum reglum um skipan dómara í landinu, en ein grunnstoða lýðræðisríkisins byggir einmitt á dómsvaldinu. Þá þarf að gera skýran greinarmun á löggjafar- og framkvæmdarvaldi svo sama persónan geti ekki samtímis farið með hvort tveggja.

Ríkisvaldið er þannig sótt til þjóðarinnar og þjóðin verður að ákveða hvernig farið verður með það vald. Stjórnlagaþing þar sem þjóðin kýs fulltrúa sína til að fara í þá miklu endurskoðun og breytingar á stjórnarskipun landsins er einstakt tækifæri til að skrifa nýjan samfélagssáttmála og ekki veitir af. Sáttmála sem þjóðin sjálf ákveður hvað inniheldur þar sem hún sjálf skipuleggur og leggur með þjóðaratkvæðagreiðslu grunninn að nýjum leikreglum.

Sumir stjórnmálamenn og þá sérstaklega úr einum flokki hafa farið mikinn og býsnast yfir því að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem varin er vantrausti af framsóknarmönnum, geti ekki og megi ekki samþykkja nokkurn skapaðan hlut í þessa veru nema með þeirra samþykki, (Gripið fram í.) oft á þeim forsendum að það hafi aldrei verið gert áður. En viti menn. Undanfarna mánuði hefur svo margt gerst sem aldrei hefur gerst áður. (Gripið fram í.) Má þar nefna hrun efnahagskerfisins sem að nokkru leyti var á ábyrgð þeirra sem nú fara með himinskautum vegna þess að hugsanlega geti myndast meiri hluti í þinginu fyrir því að breyta einhverju sem þeir sjálfir vilja ekki breyta af því þar með gætu þeir tapað spón úr aski sínum.

Háttalag af þessu tagi er í mínum huga til marks um það hversu langt ýmsir stjórnmálamenn hafa færst frá þjóð sinni. Þeir telja sig enn þá þá útvöldu og vita betur en þjóðina. Þeir hafna því að kasta boltanum til þjóðarinnar og telja sig betur til þess fallna að gæta hagsmuna hennar en hún sjálf og þá kann einhver að spyrja hvort slíkir fulltrúar séu vel til þess fallnir að fara með slíkt umboð. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður og nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson spurði í einni af 44 athugasemdum um fundarstjórn forseta, [Hlátur í þingsal.] sem fór fram í hádeginu og tók nærri einn og hálfan tíma, hvort nú væri heppilegur tími til að leiða fram breytingar á stjórnarskrá í ágreiningi. Ágreiningurinn er nú ekki meiri en svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í tvígang komið þessum breytingum á stefnuskrá sína í gegnum ríkisstjórnarsáttmála og hv. þm. Birgir Ármannsson hefur viðurkennt að vera að mestu leyti sammála því máli sem hér er til umræðu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Aldrei nokkurn tímann hefur verið brýnna að leiða fram breytingar á stjórnarskrá en núna, með eða án sjálfstæðismanna. Ekki síst vegna þess að nú er árið 2009. (Gripið fram í.) Árangurslausum tilraunum Alþingis til að ná sátt um málið verður að linna. Vegna orða hv. þm. Björns Bjarnasonar um niðurlægingu þingsins lýsa þau orð einmitt hugsunarhætti sjálfstæðismanna sem enn þann dag í dag telja sig upphaf og endi alls. Ef þeir ná ekki sínu fram í trássi við rúm 70% þjóðarinnar heitir það niðurlæging þingsins. Sá tími að sjálfstæðismenn geti talið sig upphaf og endi alls er liðinn. En afneitunin er enn til staðar. Þingið er ekki Sjálfstæðisflokkurinn þótt margir haldi það. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Bjarna Benediktssyni hefur verið tíðrætt um forgangsröðun mála hér í þinginu og viljað ráða því í hvaða röð mál eru rædd. Við þurfum að ræða öll þessi mál og hv. þingmaður getur ekki bara valið það úr sem hentar Sjálfstæðisflokknum.

Stjórnlagaþingið er forsenda þess að hér verði hægt að fara í uppbyggingu og endurreisn því ef menn ætla að byggja áfram á gömlu hugmyndunum og gömlu stjórnarskipuninni er að mínu mati betur heima setið en af stað farið. Þá breytist ekkert og hér verður allt eins og það hefur alltaf verið.

Einhverjir hafa haft á orði að tíminn til undirbúnings sé of skammur og of stuttan tíma hafi tekið að undirbúa þetta mál. Ég minni á að aðdragandinn er 65 ár og í dómsmálum og deilum liggur fyrir hvaða mál þarf að taka til skoðunar og efnislega er það því ekki vandamál. Það eina sem sjáanlega er fyrirstaða í málinu er Sjálfstæðisflokkurinn. Það má velta vöngum yfir því hvort sú andstaða sem Sjálfstæðismenn hafa sýnt málinu sé tilkomin vegna þess að þeir hafa farið með mikil völd í samfélaginu undanfarna áratugi og hafa lagst gegn því að ákvæði um eignarhald þjóðarinnar verði sett inn í stjórnarskrá. Þeir hafa líka verið andsnúnir því að Íslendingar skoðuðu það hvað möguleg aðild okkar að Evrópusambandinu gæti falið í sér og þá er athyglisvert að velta því fyrir sér hvort það tengist áðurnefndum völdum þeirra í samfélaginu, enda væri sárt að tapa þeim. (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að kveða upp dóm um það hvort íslensku þjóðinni er betur borgið undir miðstýrðu valdi Evrópusambandsins eða miðstýrðu valdi úr Valhöll. En það vekur sérstaka athygli ef sjálfstæðismenn leggjast þverir gegn tillögum þáverandi utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, sem hafði forgöngu um að kynna hugmyndir um stjórnlagaþing árið 1953 og birti þær í Morgunblaðsgrein í janúar það ár. Þar lagði hann áherslu á að hin endurskoðaða stjórnarskrá yrði að vera hornsteinn íslensks stjórnskipulags um langa framtíð. Ég ítreka, virðulegi forseti, að það vekur athygli að sjálfstæðismenn skuli leggjast þverir gegn þessu, ekki síst hv. þm. Björn Bjarnason.

Óumdeilt er að alþingismenn sækja umboð sitt til fólksins í landinu, en 65 ára saga gefur til kynna að þeir valdi ekki því verkefni að endurskoða stjórnarskipunina og meiri hluti þjóðarinnar vill taka það verkefni í sínar hendur og skrifa nýjan sáttmála og leikreglur, m.a. fyrir stjórnmálamenn og m.a. fyrir stjórnmálamenn sem tilheyra Sjálfstæðisflokknum. Hvers vegna í veröldinni skyldu umboðsmennirnir ekki una því að fá samning sinn endurnýjaðan á nýjum forsendum? Það er ekki eins og ekkert hafi breyst eða hvað? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Mér ofbýður framganga sjálfstæðismanna í þinginu þessa dagana þar sem þeir setja ítrekað á löng leikrit, standa hér og syngja í ræðustól um miðjar nætur, eins og þeir séu fullir. Ég held nú reyndar að þessi ágæti þingmaður, (Gripið fram í: Hvaða, hvaða, hvaða?) sem stóð hér syngjandi í nótt, drekki ekki. En ég vek athygli á því að ég á 28 mínútur eftir af ræðutíma mínum en þar sem ég hef lokið máli mínu ætla ég ekki að lengja umræðuna.