136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður Helga Sigrún Harðardóttir vildi að málið væri rætt málefnalega, eins og hún sagði, markvisst og faglega. Í þeim anda fjallaði hún á þeim tólf mínútum sem hún notaði til ræðuhalda hér um Sjálfstæðisflokkinn í svona tíu mínútur. Á fyrstu fjórum mínútum ræðu sinnar nefndi hún Sjálfstæðisflokkinn tíu sinnum, 20 sinnum alls í ræðunni og vísaði til hans oft með einhverjum fornöfnum og í einhverju samhengi. (Gripið fram í: Ertu ekki ánægður með það?) Ég er mjög ánægður með þetta. Ég hins vegar minni á að hér er ekki Sjálfstæðisflokkurinn til umræðu heldur stjórnarskrárbreytingar og það hefði verið gagnlegt ef hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir hefði rökstutt það hvers vegna hún styður þetta frumvarp og lýst skoðunum sínum á því frekar en að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn. Málflutningur hennar var eiginlega með fullkomnum ólíkindum.

Það eru nokkur atriði einstök sem mér finnst ástæða til að leiðrétta hjá henni. Hún talar eins og engar stjórnarskrárbreytingar hafi verið gerðar hér á undanförnum árum, Alþingi hafi verið ófært um að gera stjórnarskrárbreytingar. Ég minni á bara síðustu stjórnarskrárbreytingar 1991, 1995, 1999. Í öll skiptin var stjórnarskránni breytt, í sumum tilvikum verulega og í öll skiptin var það gert í fullkominni sátt og það var ekki um það að ræða að verið væri að valta yfir minni hluta eða keyra einhver mál í gegn og það, þó að það væri leitað samstöðu, kom ekki í veg fyrir að stjórnarskrárbreytingar væru gerðar.

Síðan vildi ég bara, til þess að halda því til haga, af því að hv. þingmaður vitnaði í sjónarmið Bjarna Benediktssonar frá 1953, að þá slær hann úr og í í þeirri grein. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í: Jaá!) Já, og talar um að kosningafyrirkomulagið skipti höfuðmáli og telur að undir ákveðnum kringumstæðum geti (Forseti hringir.) þjóðfundur eða stjórnlagaþing verið tilgangslítið. Hins vegar verð ég að játa (Forseti hringir.) að þó að ég beri mikla virðingu fyrir Bjarna Benediktssyni (Forseti hringir.) þá er ég ekki bundinn af skoðunum hans.