136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:37]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka Birgi Ármannssyni fyrir að ræða þetta mál efnislega. Ég er hissa á því að hann skuli ekki bundinn af skoðunum Bjarna Benediktssonar hins eldri.

Ég tel að full ástæða sé til að ræða framgöngu sjálfstæðismanna hér í þinginu og þess vegna varði ég hluta ræðu minnar í það. Hv. þm. Birgir Ármannsson — ég var næstum því búin að segja Bjarni Ármannsson — hv. þm. Birgir Ármannsson segir hér að ég hafi haldið því fram að engar breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni. Það er ekki rétt. Ég hélt því ekki fram. Ég hef hins vegar rennt í gegnum sögu þingsins og lesið þingskjöl mér til ánægju og yndisauka og til upplýsingar og fróðleiks og þar kemur einmitt fram að það er á níunda tug breytingartillagna sem liggja fyrir hér í þinginu sem lagðar hafa verið fram á þessum 65 árum, á níunda tug. (PHB: Slatti frá mér.) „Slatti frá mér“, segir hv. þm. Pétur Blöndal. Því (Gripið fram í.) trúi ég vel. Sjö þeirra hafa verið samþykktar. Það liggur fyrir að töluvert mikið starf hefur verið unnið í stjórnarskrárnefndum. Þær hafa skilað mismiklu starfi að vísu í gegnum tíðina. En það segir sig alveg sjálft að ef sjö tillögur af hátt í 90 ná samþykki í þinginu þá tel ég að það sé ekki neinn sérstakur árangur.