136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Á engu af því sem hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir kom inn á hér er snert í breytingunum sem við ræðum varðandi stjórnarskipunina. Í rauninni svaraði Helga Sigrún Harðardóttir spurningu minni á þann veg að hún svaraði henni ekki játandi. Ég get ekki lesið það öðruvísi en svo að hv. þingmaður treysti þinginu ekki til þess að samþykkja stjórnarskrárbreytingar og fara síðan með þær út til þjóðarinnar.

Af hverju getum við ekki sammælst um að stíga það risaskref að breyta stjórnarskránni — og síðan eftir 6–8 vikur kemur þing aftur saman og getur rætt í sátt um það — og færa síðan það plagg til þjóðarinnar? Af hverju ekki? Treystir hv. framsóknarþingmaður Helga Sigrún Harðardóttir ekki Alþingi Íslendinga til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar?