136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla hvorki að ræða Sjálfstæðisflokkinn né annað, ég ætla að ræða það sem er á dagskrá, það er sem sagt málið hérna. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að fylgiskjalið hefði ekkert gildi fyrir nýtt Alþingi sem hefði nýtt umboð eftir kosningar. Þá fer maður að spyrja sig um ýmislegt.

Ég er mjög hlynntur því að sett verði á laggirnar stjórnlagaþing. Ég vil reyndar hafa það ráðgefandi og þar skilur á milli okkar. Ég er mjög hlynntur því en ég óttast — af því að menn eru að pota þarna inn í 1. gr. breytingum á náttúruauðlindum, ákvæði um það, og í 3. gr. um þjóðaratkvæðagreiðslur — að menn séu með það í huga að halda ekkert stjórnlagaþing. Ef þeir ætluðu sér að halda stjórnlagaþing væru þeir ekki með þessa breytingu á stjórnarskránni áður en það tæki til starfa.

Ég óttast hreinlega að verið sé að plata Framsóknarflokkinn og mig með þessu frumvarpi, þ.e. að í stað þess að breyta bara 79. gr. — og þá getum við gert allt sem okkur dettur í hug hið nýskipaða Alþingi með nýtt umboð kjósenda, þá getum við gert hvað sem er strax í júní, júlí, breytt stjórnarskránni, komið með stjórnlagaþing og gert allt.

En menn eru að pota þarna inn náttúruauðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslu og því óttast ég að menn ætli sér ekkert að fara í neitt stjórnlagaþing. Það kom hér fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að nýtt þing er ekkert bundið af þessu, hvorki fylgiskjalinu né neinu öðru. Ég spyr hv. þingmann: Getur verið að það sé verið að plata okkur bæði tvö?