136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér höfum við þingmenn hlýtt á mjög yfirgripsmiklar og ítarlegar ræður, ekki síst okkar sjálfstæðismanna og ekki síst þeirra sem hafa verið fulltrúar okkar í sérnefnd um stjórnarskrármál. Nú er hv. þm. Björn Bjarnason búinn að flytja sína fyrstu ræðu, hv. þm. Sturla Böðvarsson, Birgir Ármannsson og núna er fjórði fulltrúinn okkar í sérnefnd um stjórnarskrármál að fara að flytja sína ræðu.

Ég tel það einkenna lítilsvirðingu, gott og vel, gagnvart Sjálfstæðisflokknum af hálfu ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin og fulltrúar hennar og framsögumenn málsins, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, séu fjarri og finnst eðlilegt að a.m.k. tvö þau síðastnefndu verði við umræðuna sem eftir lifir þessarar dagskrár. Það er mikilvægt að mínu mati að ekki bara fulltrúar okkar í stjórnarskrárnefnd heldur við þingmenn höfum tækifæri til að spyrja flutningsmenn, ekki síst hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, ákveðinna spurninga í þessu yfirgripsmikla máli þar sem kemur æ betur í ljós að vinnubrögðin eru alveg fáheyrð. (Forseti hringir.) Þau eru með endemum, þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þessu mikilvæga máli (Forseti hringir.) og þess vegna tel ég einsýnt að krefjast þess af hæstv. forseta að biðja flutningsmenn að vera við umræðuna.