136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Jón Magnússon sagði, það vakti nokkra athygli sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði undir lok málsmeðferðar í nefndinni. Það var mjög forvitnilegt og það væri mjög heppilegt ef fram kæmi hvaða athugasemdir það voru sem hann hafði.

Ég tek að sjálfsögðu undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Gert er ráð fyrir að umræður í þinginu séu í þeim tilgangi að þar fari fram skoðanaskipti um þau frumvörp og þær breytingartillögur sem eru til umræðu. Það er bæði mikilvægt og í rauninni nauðsynlegt að þeir hv. þingmenn sem fluttu þetta frumvarp og eru upphafsmenn málsins láti í ljós skoðanir sínar á því hvaða stefnu málið hefur tekið í meðförum meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál og upplýsi okkur um afstöðu sína til þeirra atriða, því að það er auðvitað um talsverðar breytingar að ræða, einkum hvað varðar stjórnlagaþingið.