136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það að þau skuli ekki vera viðstödd þessa umræðu lýsir í rauninni hvert viðhorf þeirra gagnvart þessu máli er. Það er lítilsvirðing gagnvart stjórnarskránni, það er verið að setja þingið til hliðar eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson kom inn á í sínu máli. Verið er að setja þingið til hliðar, þingið skiptir engu máli, og menn eru ekki einu sinni viðstaddir umræðuna þegar fulltrúar í stjórnarskrárnefndinni halda ræður sínar og bera fram spurningar.

Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni og mæli eindregið með því að hæstv. forseti geri núna hlé á fundum þingsins þar til hæstv. ráðherrar eru komnir í hús. Ef hæstv. forseti vill ekki gera hlé mæli ég eindregið með því að hann taki mikilvæg mál á dagskrá eins og Helguvíkurmálið. Við skulum ræða Helguvík á meðan hæstv. ráðherrar koma sér í hús en ég mæli eindregið með því að gert verði hlé á þessari umræðu þar til ráðherrar hafa sýn sig og sýnt um leið þinginu virðingu sem er svo lítið af í því máli sem við erum að ræða.