136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:43]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki hjá því komist að benda á að fyrr í umræðunni í dag þegar við vorum að ræða dagskrána og hvort ekki væri eðlilegra og skynsamlegra að breyta röðun dagskrárliða þannig að t.d. mikilvæg mál er snerta fjölskyldurnar og atvinnulífið í landinu kæmu á undan stjórnarskrárumræðunni, sagði hæstv. forsætisráðherra að eins og allir vissu sem fylgst hefðu með stjórnarmyndun hennar eigin ríkisstjórnar, væri stjórnarskrármálið hennar hjartans mál, þess vegna ætti ekki að koma á óvart að hún vildi láta ræða það mál. Það hlýtur því að vekja alveg sérstaka furðu að hún hafi ekki meiri áhuga á málinu en raun ber vitni, að hún komi ekki og segist ekki eiga heimangengt þegar hún er beðin um að koma.

Ég minni líka á að búið er að varpa hér fjölmörgum spurningum til forseta og hann virðir okkur þingmenn ekki meira en svo að hann svarar þeim ekki einu sinni. (Gripið fram í.) Eigum við ekki rétt á því að fá svör við þeim spurningum sem bornar hafa verið fram og eigum við ekki rétt á því að við fáum að vita af hverju þeir ráðherrar hæstv. og aðrir þingmenn sem hér hefur verið kallað eftir að séu viðstaddir, (Forseti hringir.) eru ekki hérna? (Gripið fram í.)