136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:45]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram um að forseti svari ekki spurningum. Mér finnst það algerlega óviðunandi og verið er að reyna að stýra fundi hér í þeim tilgangi að umræðum ljúki. En krafan um það að flutningsmenn frumvarpsins komi hingað er eðlileg. Hún er fullkomlega eðlileg og öðruvísi mér áður brá.

Ég hef setið bæði á forsetastól og sem ráðherra undir þeirri kröfu Steingríms J. Sigfússonar um að hingað komi flutningsmenn og ráðherrar jafnt að degi sem nóttu. Þannig að ömurlegt er til þess að vita að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra skuli ekki mæta hingað og það er algjör lítilsvirðing sem verið er að sýna þinginu og kann að vera að það sé í eðlilegu samhengi við þær breytingar sem verið er að leggja til að gera á stjórnarskránni. Ég (Forseti hringir.) fordæmi þessi vinnubrögð.