136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Þakka þér fyrir, herra forseti. En mér þykir mjög miður að þeir aðilar sem að þessu frumvarpi standa sýni því ekki meiri virðingu en þetta. Síðan hrunið varð í október hefur öll þjóðin beðið eftir því að við ræðum um stjórnlagaþing (Gripið fram í: Já.) og ég veit að Framsóknarflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á það. Verið er að sýna Framsóknarflokknum óvirðingu aftur. Nú segja þeir bara: Hann er búinn að borga og við borgum fyrir okkur ef þetta frumvarp verður lagt fram en höfum engan áhuga á því að öðru leyti.

Því miður óttast ég það að það sé einmitt það sem verði og eftir kosningar verði ekki neitt stjórnlagaþing. Þeir hafa náð fram breytingum sínum um kosningar og að auðlindirnar séu inni í stjórnarskránni og það er það sem þeir ætluðu. Meiru hafa þeir ekki áhuga á og ég er ansi hræddur um að framsóknarmenn og öll þjóðin muni upplifa það þegar fram í sækir að það verði ekkert stjórnlagaþing.