136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:48]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér er ljós sá vandi sem forseti stendur frammi fyrir. En vegna þess að ég veit að sá forseti þingsins sem hér stýrir fundi hefur mikla þingreynslu og er sanngjarn maður þá er ég sannfærður um að hann tekur tillit til þeirra ábendinga sem hér hafa verið settar fram vegna þess að þær eru fullkomlega eðlilegar og sanngjarnar.

Við fjöllum hér um stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og flutningsmenn frumvarpsins eru ekki viðstaddir. Hér fer fram mikilvæg umræða og það getur ekki verið að forseti Alþingis Íslendinga ætlist til að við förum hér inn í nóttina til að ræða breytingar á stjórnarskránni við þessar aðstæður. Ég trúi ekki öðru en að sá sanngjarni maður sem hér situr á forsetastóli taki tillit til þess. (Gripið fram í: Heyr.)