136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér skilst að þeir sem hafa beðið um fjarvistarleyfi séu ekki flutningsmenn frumvarpsins. Ég held að þetta sé mjög réttmæt ábending núna af hálfu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, herra forseti. Það er alveg ljóst að með fjarvist sinni frá þinginu við þessar umræður — og ekki bara við umræður okkar sem erum ekki í stjórnarskrárnefnd heldur hafa allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins flutt sínar góðu ræður, farið mjög ítarlega yfir efnið og komið með rök og spurningar um af hverju málum er hagað með þessum hætti. Þeim er ekki svarað, ekki af einum einasta flutningsmanni frumvarpsins.

Það er auðvitað ósköp þægilegt fyrir hæstv. ráðherra, ekki síst forsætisráðherra sem þarf þá ekki, meðan þessi umræða stendur yfir, að svara fyrir hvernig hún ætlar að hækka skatta. Hún þarf ekki að svara fyrir hvernig hún ætlar að leysa ríkisfjármálin. Hún þarf ekki að svara fyrir það (Forseti hringir.) hvernig gengi krónunnar á að vera. Hún þarf ekki að svara fyrir (Forseti hringir.) af hverju ekki er búið að leysa vandamál bankanna. Það er ósköp þægilegt en það er til vansa fyrir þingið, herra (Forseti hringir.) forseti að ekki skuli vera betur að málum staðið (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnarinnar sem er í minni hluta. (Forseti hringir.)