136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þá ábendingu sem hv. þm. Ásta Möller kom með að ekki sé fundarhæft um þetta mál fyrst svo háttar að flutningsmenn málsins eru ekki viðstaddir til að taka þátt í umræðum og eru, eftir því sem mér heyrist, ekki væntanlegir.

En ég vil spyrja hæstv. forseta hvort kannað hafi verið hvort flutningsmenn frumvarpsins eru enn þá uppteknir? Það var kannað fyrir klukkustundu eða svo og gæti verið að þær skyldur sem þessir þingmenn þurftu að gegna á þeim tíma séu búnar, að þeir hafi lokið þeim störfum sem þeir sinntu á þessum tíma. Ég bið hæstv. forseta að kanna það.

En ég hlýt að minna á að það mál sem hér er til umræðu þykir af hálfu meirihlutaflokkanna í þinginu svo ægilega brýnt að það var tekið fram fyrir mál eins og vaxtabætur til almennings í landinu, fjármálafyrirtækja þar sem spurning er um uppgjör (Forseti hringir.) og skilanefndir, og samninga um álverið í Helguvík. Það var svo rosalega brýnt mál að það (Forseti hringir.) varð að taka það fyrir á undan þessum málum. En ekki (Forseti hringir.) er það brýnna en svo að (Forseti hringir.) flutningsmenn frumvarpsins sjálfir sjá ekki ástæðu til þess að koma hér í umræðuna. (Forseti hringir.)