136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:39]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til að reyna að ná í þessa hv. þingmenn og hæstv. ráðherra. Ég held að það sé brýn ástæða til þess að slíta fundi nú og við förum inn í nýjan dag og umræðuna á morgun.

Ég ætla að vekja athygli á því að margir hér hafa sinnt þingstörfum í sextán tíma í dag og ég a.m.k. þarf að mæta aftur í á fund í minni nefnd eftir sjö tíma. Það er náttúrlega alltaf spurningin um hvernig menn vilja haga þingstörfum og verður að miða við að þó sé um eðlilegan hvíldartíma fólks að ræða þó að fólk geti verið hér og rætt um viðkvæm og erfið mál sem eru ekki síður erfið en að keyra vörubíl þar sem krafist er hvíldartíma með fjögurra tíma millibili.

Ég tel, hæstv. forseti, að það sé kominn tími til að þess að slíta þessum fundi vegna þess að störf þingsins hafa nú staðið mjög lengi, í allan dag, og þau (Forseti hringir.) munu gera það allan daginn á morgun. (Forseti hringir.) Mér skilst að fyrirhugað sé að funda á laugardaginn líka. (Forseti hringir.) Það er náttúrlega engin framkoma eða (Forseti hringir.) virðing við þingið að haga störfum með þessum hætti.