136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er mjög auðvelt að koma hingað upp og segja nákvæmlega það sem manni býr í brjósti og það er náttúrlega verið að vanvirða stjórnarskrána. Nú er klukkan að verða eitt og við erum ekki búin að sjá framan í einn einasta flutningsmann frumvarpsins sem situr í ríkisstjórn.

Það er verið að ræða grundvallarbreytingar á stjórnarskránni. Og svo flissa menn bara úti í sal og svara ekki einni einustu af spurningum okkar nefndarmanna í stjórnarskrárnefndinni, vel ígrunduðum spurningum.

En ég verð að spyrja hæstv. forseta hvort hann ætli ekki örugglega að fresta fundi þar til hæstv. ráðherrar eru komnir í hús. Ég minni á að við höfum nú oft verið kölluð út eða að minnsta kosti meðan ég var ráðherra. Við ræddum merk mál eins og t.d. Ríkisútvarpið ohf. en ég efa ekki að þetta mál er mun mikilvægara en þá voru menn ræstir út. (Forseti hringir.) Ég trúi ekki öðru en (Forseti hringir.) að hæstv. forseti sýni núna snöfurmannleg handtök og (Forseti hringir.) hringi í hæstv. ráðherra og boði þá hingað hið (Forseti hringir.) snarasta ellegar geri hlé á fundi hið fyrsta.