136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:45]
Horfa

Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið bent á að hugsanlega, og meira en hugsanlega, mjög líklega sé verið að brjóta þingskapalög með því að þingmenn sæki ekki þingfund. Ég spyr jafnframt: Er verið að brjóta lög um hvíldartíma? Hér er búið að skipuleggja fund í allsherjarnefnd klukkan 8.30 í fyrramálið, eftir tæpa átta tíma, og síðan verður opinn fundur í samgöngunefnd klukkan 9.30. Er hugmyndin sú, ef það á að halda hér áfram, að fresta þessum fundum í fyrramálið til þess að virða m.a. lög um hvíldartíma?

Margir þingmenn voru hér til klukkan hálfþrjú í nótt og mættu klukkan hálfníu í morgun á nefndarfund og eru hér enn. Þetta er náttúrlega ekki orðinn boðlegur vinnutími. Ég hvet aftur hæstv. forseta til að slíta fundi til að fólk geti mætt á réttum tíma í fyrramálið í þessar mikilvægu nefndir, allsherjarnefnd klukkan 8.30 og á opinn fund í samgöngunefnd (Forseti hringir.) klukkan 9.30.