136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:48]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þá vil ég minna hæstv. forseta á að þingmenn eiga að mæta hér til að fylgja málum sínum úr hlaði og svara þeim spurningum sem til þeirra er beint. Það er móðgun við þingið, þjóðina og stjórnarskrána að enginn af flutningsmönnum þessa frumvarps sé hér. Það væri hollt fyrir okkur þingmenn sem höfum setið undir lærðum fyrirlestrum hv. þm. Atla Gíslasonar um faglega verkferla, lýðræðisleg vinnubrögð og opin og gegnsæ skoðanaskipti að vita hvað hann telur og hvert álit hans er á því að hvorki hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra né aðrir flutningsmenn eru við umræðuna.

Hv. þingmaður veifaði þessari handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa trekk í trekk meðan hann var þingmaður í stjórnarandstöðu. (Forseti hringir.) Nú heyrist hvorki hósti né stuna frá hv. þingmanni þegar hann er kominn í stjórnarmeirihlutann (Forseti hringir.) og hans menn hafa ekki brjóst í sér til þess að fylgja sínum eigin málum eftir. (Forseti hringir.) Ég krefst þess að þessum fundi verði frestað.