136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:50]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er búið að benda á að hér er verið að brjóta þingsköpin. Það eru greinilega engin lögleg forföll sem hindra menn í að mæta til umræðunnar og ég verð að segja eins og er, forseti, að mér finnst þetta ekki ganga lengur. Ég legg það til við hæstv. forseta að nú verði fundi frestað, forseti kalli saman þingflokksformenn og þetta ástand verði rætt þar, á fundi þingflokksformanna. Það er eiginlega ekki við hæfi að hér komi fram að flutningsmenn mála geti ekki mætt í umræðuna og staðið fyrir máli sínu.

Hér er mættur seint og um síðir hv. þm. Atli Gíslason sem er meðal þeirra sem standa að þessu nefndaráliti en hann ber það ekki einu sinni við — hann hefur hlýtt á eina ræðu — að svara þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Allt er þetta ferli með þessum hætti. Umræðan er sem sagt engin (Forseti hringir.) um þetta merka mál þar sem við viljum leggja áherslu á að (Forseti hringir.) hér erum við að ræða stjórnarskrána og þetta er vanvirðing við þjóðina, þingið og stjórnarskrána.